Fara í efni

Félagsmála- og tómstundanefnd

19. fundur 30. nóvember 2023 kl. 15:00 - 17:20 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Sigurður Bjarni Rafnsson formaður
  • Sigurður Hauksson varaform.
  • Anna Lilja Guðmundsdóttir aðalm.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Þorvaldur Gröndal frístundastjóri
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri
Fundargerð ritaði: Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun 2024 - málaflokkur 02

Málsnúmer 2309256Vakta málsnúmer

Fjárhagsáætlun fyrir félagsþjónustu (02) lögð fram til síðari umræðu í nefndinni. Áætlunin er unnin í samstarfi við fjármála- og stjórnsýslusvið sem og forstöðumenn einstakra stofnana. Áætlunin endurspeglar þá þjónustu sem veitt er í þessum málaflokkui og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru m.t.t. lagaákvæða og/eða ákvarðana sveitarstjórnar. Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir áætlunina fyrir sitt leyti með áorðnum breytingum og vísar henni til byggðarráðs og síðari umræðu í sveitarstjórn. Nefndin þakkar starfsfólki fjölskyldusviðs fyrir vel unna fjárhagsáætlun.

2.Fjárhagsáætlun 2024 - málaflokkur 06

Málsnúmer 2309257Vakta málsnúmer

Fjárhagsáætlun fyrir frístundaþjónustu (06) lögð fram til síðari umræðu í nefndinni. Áætlunin er unnin í samstarfi við fjármála- og stjórnsýslusvið. Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir áætlunina fyrir sitt leyti með áorðnum breytingum og vísar henni til byggðarráðs og síðari umræðu í sveitarstjórn. Nefndin þakkar starfsfólki fjölskyldusviðs fyrir vel unna fjárhagsáætlun.
Ragnar Helgason sat fundinn undir dagskrárlið 1 og 2.

3.Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar 2024

Málsnúmer 2310032Vakta málsnúmer

Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar frá 1. janúar 2024 verði reiknuð með sama hætti og verið hefur samkvæmt 9.gr. reglna þ.e. 80,4 % af atvinnuleysisbótum eins og þær voru í nóvember árið á undan. Vísað til byggðarráðs.

4.Gjaldskrá Iðju hæfingar 2024

Málsnúmer 2310033Vakta málsnúmer

Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að hlutur notenda Iðju í fæðiskostnaði hækki um 4,9 % úr 669 kr. í 702 kr. fyrir hádegisverð, sem er um helmings kostnaður við máltíðina. Notendur greiða ekki fyrir morgun- og síðdegishressingu. Vísað til byggðarráðs.

5.Greiðslur vegna þjónustu stuðningsfjölskyldna 2024

Málsnúmer 2310035Vakta málsnúmer

Félagsmála-og tómstundanefnd samþykkir að fjárhæðir greiðslna vegna þjónustu stuðningsfjölskyldna árið 2024 taki mið af meðlagsgreiðslum eins og þær eru í júní 2023 kr. 43.700.
Umönnunarflokkur 1 greitt 85% af meðlagi samtals kr. 37.145 pr. sólarhring.
Umönnunarflokkur 2 greitt 75% af meðlagi samtals kr. 32.775 pr. sólarhring.
Umönnunarflokkur 3 greitt 50% af meðlagi samtals kr. 21.850 pr. sólarhring.
Greitt er fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldu sem veittar eru á grundvelli barnaverndarlaga skv. 2.fl. umönnunarmats frá Tryggingarstofnun ríkisins. Greitt er fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldu sem veittar eru á grundvelli félagsþjónustulaga skv. 3.fl. umönnunarmats frá Tryggingarstofnun ríkisins. Vísað til byggðarráðs.

6.Gjaldskrá heimaþjónustu 2024

Málsnúmer 2310036Vakta málsnúmer

Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að gjaldskrá verði miðað við launaflokk 128 skv. samningum Öldunnar/Kjalar frá 1.janúar 2023 með 8% persónuálagi með tengdum gjöldum. Tekjuviðmið til lækkunar gjalda miðast við greiðslur Tryggingastofnunar. Vísað til byggðaráðs.

7.Niðurgreiðsla til dagforeldra og foreldragreiðslur 2024

Málsnúmer 2310037Vakta málsnúmer

Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að upphæð niðurgreiðslna skv. 6. gr. reglna um niðurgreiðslu á daggæslu í heimahúsum og um foreldragreiðslur hækki um 4,9 %. Niðurgreiðsla verður þó aldrei hærri en sem nemur mismun á heildargjaldi vistunar hjá dagforeldri og í leikskóla (gæsla, kostnaður og fæði). Vísað til byggðarráðs.

8.Greiðsluviðmið jafnaðarstunda NPA samninga 2024

Málsnúmer 2310040Vakta málsnúmer

Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að taka mið af útreikningum NPA miðstöðvarinnar við útreikning jafnaðarstunda árið 2024. Miðað er við þrjá mismunandi taxta sem endurspegla þarfir notenda þjónustunnar. Jafnaðarstund felur í sér framlag til launakostnaðar (85%), framlag til umsýslukostnaðar (10%) og framlag til starfsmannakostnaðar (5%). Greiðsluviðmið verða samkvæmt uppreiknuðum jafnaðartaxta NPA miðstöðvarinnar 1. janúar 2024. Vísað til byggðaráðs.

9.Gjaldskrá Dagdvalar aldraðra 2024

Málsnúmer 2310041Vakta málsnúmer

Daggjald er ákvarðað í reglugerð um dagdvöl aldraðra nr. 1245/2016 með árlegum breytingum. Nefndin samþykkir að fæðiskostnaður á dag árið 2024 verði 631 kr. Vísað til byggðarráðs.

10.Tillaga - Matarþjónusta - eldri borgarar

Málsnúmer 2211102Vakta málsnúmer

Félagsmálastjóri kynnti stöðu verkefnisins og þá vinnu sem unnin hefur verið frá því að nefndin fjallaði síðast um málið. Nefndin felur starfsfólki að kanna aðrar mögulegar útfærslur og leggja fyrir á næsta fundi nefndarinnar.

11.Aflið - Styrkbeiðni

Málsnúmer 2310148Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni um styrk frá Aflinu á Akureyri sem eru samtök fyrir þolendur ofbeldis, sinna einstaklingsviðtölum og hópastarfi, fólki að kostnaðarlausu. Nefndin samþykkir að styrkja Aflið um 150.000 krónur vegna starfsins á árinu 2024.

12.Samráð; Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Málsnúmer 2311081Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 9. nóvember þar sem Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 230/2023, "Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks". Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, sem nú er lögð fram sem landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, byggir á þeirri framtíðarsýn og þeim meginreglum sem fram koma í samningnum. Markmið landsáætlunar er þannig samhljóðandi við fyrstu grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks; að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og að auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.
Umsagnarfrestur var til og með 23.11.2023. Byggðarráð Skagafjarðar sendi inn umsögn.

13.Samráð; Heildarendurskoðun á barnalögum

Málsnúmer 2311192Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 21. nóvember 2023 þar sem Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 239/2023, "Heildarendurskoðun á barnalögum". Dómsmálaráðherra hefur skipað þriggja manna sifjalaganefnd til þess að vinna að endurskoðun á barnalögum og hjúskaparlögum og hefur nefndin þegar tekið til starfa.
Umsagnarfrestur er til og með 12. desember 2023.

14.Opnunartímar íþróttamannvirkja 2024

Málsnúmer 2311286Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um opnunartíma íþróttamannvirkja 2024. Nefndin samþykkir framlagða tillögu. Opnunartímar verða birtir á heimasíðu sveitarfélagsins.

15.Ósk um lengda opnun Sundlaugarinnar á Sauðárkróki

Málsnúmer 2311032Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi þar sem óskað er eftir endurskoðun á opnunartíma Sundlaugar Sauðárkróks þannig að sundlaugin opni fyrr á virkum morgnum. Nefndin sér sér ekki fært að verða við erindinu.

16.Framtíðarstefnumörkun íþróttamála í Skagafirði

Málsnúmer 2203176Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar spurningalisti sem sendur var á stjórnir deilda og félaga innan UMSS. Starfshópur um framtíðarstefnumörkun íþróttamála í Skagafirði tók til starfa í sumar, en honum er falið að framkvæma stöðumat með því að afla upplýsinga sbr. greinagerð er samþykkt var á ársþingi UMSS árið 2022.

17.Vinnuskóli 2023

Málsnúmer 2311295Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla um Vinnuskóla og V.I.T. sumarið 2023.

18.Styrkbeiðni Sönghóps félags eldri borgara í Skagafirði

Málsnúmer 2311096Vakta málsnúmer

Málið er tekið inn með afbrigðum með samþykki allra nefndarmanna. Málið var áður á dagskrá nefndarinnar þann 16. nóvember 2023 þar sem afgreiðslu var frestað. Nefndin samþykkir erindið og felur starfsfólki að gera viðauka við samning við Félag eldri borgara í Skagafirði til að mæta kostnaði við sönghóp félags eldri borgara sem og vegna félagsstarfs eldri borgara á Löngumýri.

Fundi slitið - kl. 17:20.