Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

827. fundur 03. maí 2018 kl. 08:30 - 11:23 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Sigríður Svavarsdóttir varaform.
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir aðalm.
  • Bjarni Jónsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Samstarfssamningur um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar á Sauðárkróki

Málsnúmer 1803025Vakta málsnúmer

Sjá trúnaðarbók.

2.Fjárhagsleg áhrif sýndarveruleikasýningar

Málsnúmer 1805010Vakta málsnúmer

Minnisblað frá Deloitte ehf. - fjármálaráðgjöf, dagsett 1. maí 2018.
Lagt fram minnisblað frá Deloitte ehf. þar sem áætluð eru fjárhagsleg áhrif uppsetningar sýndarveruleikasýningar á Sauðárkróki á Sveitarfélagið Skagafjörð, vegna samstarfssamnings við Sýndarveruleika ehf. Út frá þeim forsendum sem þar koma fram eru heildartekjur sveitarfélagsins yfir 30 ára tímabil vegna verkefnisins metnar á um 635 m.kr. á móti 440 m.kr. áætlaðri skuldbindingu sveitarfélagsins yfir 30 ára tímabil.
Samkvæmt minnisblaði Deloitte eru beinar tekjur sveitarfélagsins í formi útsvarstekna áætlaðar 11,2 m.kr. á ársgrundvelli. Beinar tekjur ríkisins í formi tekjuskatta lögaðila, tryggingargjalds og staðgreiðslu einstaklinga eru áætlaðar 30,3 m.kr. á ársgrundvelli.
Í minnisblaðinu er byggt á greiningum Megin lögmannsstofu á áætlaðri skuldbindingu sveitarfélagsins í tengslum við samstarfssamning við Sýndarveruleika ehf. og er hún metin á um 440 m.kr. yfir 30 ára tímabil eða að meðaltali um 14,7 m.kr. á ársgrundvelli. Megin hefur metið skuldbindingu vegna ráðstöfunar fasteigna án leigugjalds, viðhalds fasteigna og skuldbindingar vegna tveggja starfsmanna. Taka ber fram að höfundur greiningar Megins áréttar að tilgangur greiningarinnar sé að meta hámarksskuldbindingu sveitarfélagsins með samstarfssamningnum og telur sterk rök vera fyrir því að skuldbindingin sé talsvert lægri.
Í minnisblaði Deloitte er jafnframt sett fram umfjöllun um óbein fjárhagsleg áhrif verkefnisins. Rannsóknir á óbeinum áhrifum ferðmanna eru takmarkaðar á Íslandi en höfundar minnisblaðs hafa vísað til niðurstöðu á viðfangsefninu frá Danmörku þar sem óbein áhrif ferðamanna eru metin um 47% af heildaráhrifum á ríki og sveitarfélög. Væru niðurstöður frá Danmörku lýsandi fyrir verkefnið fengist að óbein fjárhagsleg áhrif verkefnisins næmu 37 m.kr. á ársgrundvelli. Væri skipting fjárhagslegra áhrifa milli ríkis og sveitarfélagsins í samræmi við skiptingu beinna áhrifa væru óbein áhrif til sveitarfélagsins um 10 m.kr. á ársgrundvelli. Óvíst er þó hvernig óbeinu áhrifin munu skiptast milli ríkis og sveitarfélaga og hversu stór hluti þeirra mun falla til sveitarfélagsins. Höfundar benda einnig á að nettó áhrif gætu falið í sér minnkandi aðsókn á öðrum ferðamannastöðum en telja þó líklegra að slíkra áhrifa muni gæta utan sveitarfélagsins.
Byggt á þeim forsendum sem fjallað hefur verið um hér að framan má áætla að áhrif á Sveitarfélagið Skagafjörð geti, á ársgrundvelli, numið 11,2 m.kr. í formi beinna tekna, um 10 m.kr. vegna óbeinna áhrifa og kostnaður vegna skuldbindingar sveitarfélagsins að meðaltali um 14,7 m.kr. á ári. Nettó áhrif á sveitarfélagið eru þannig áætluð jákvæð sem nemur 6,5 m.kr. á ársgrundvelli eða sem nemur 195 m.kr. yfir 30 ára samningstímabil.
Bjarni Jónsson óskar bókað:
Fyrirvari er settur við niðurstöður Deloitte um ávinning sveitarfélagsins af verkefninu sem virðist mjög óverulegur í ljósi þess hve mikið sveitarfélagið hyggst leggja í verkefnið, og byggjast á forsendum og gögnum sem þeim voru lögð til og ekki síst væntingum um gestafjölda sem óvíst er að gangi eftir. Ekki er gefið að tugþúsundir gesta muni sækja sýninguna.
Ekki hefur verið unnin fagleg óháð úttekt á heildarskuldbindingum Sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika ehf. Minnisblað lögmanna sveitarfélagsins hjá Megin, sem unnu að sjálfri samningagerðinni og sjá um að svara fyrir hönd meirihlutans kærum og fyrirspurnum stjórnvaldsaðila vegna ólögmætrar leyndar og málsmeðferðar er því ekki tækt. Enda er ekki tekið tilliti til mikilvægra stórra og augljósra skuldbindinga og áhrifum þeirra á rekstur sveitarfélagsins til lengri tíma litið, sem myndu hleypa fjárhagslegum skuldbindingum sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika ehf. yfir 770 milljónir ef engu er undan skotið, að mati undirritaðs.
Deloitte leggur ekki mat á samantekt ofangreindra lögmannanna Megin á heildarskuldbindingum sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika ehf. en notast við niðurstöðutölur úr samantektinni. Starfsmenn Deloitte gera í samantektinni sem meirihlutinn fékk þá til að vinna fyrir sig sérstakan fyrirvara: „Við staðfestum hvorki að upplýsingarnar séu réttar né tæmandi og ætti því ekki að treysta á gögnin sem slík. Staðfestingarvinna á umræddum upplýsingum hefur ekki verið unnin af hálfu Deloitte. Allar ályktanir og niðurstöður sem dregnar eru fram í þessu skjali endurspegla álit Deloitte, byggt á þeim gögnum sem aðgengileg voru fram að dagsetningu þessa skjals, og geta breyst án fyrirvara.“
Bjarni Jónsson, VG og óháðum

3.Samstarfssamningur um uppbyggingu sýndarveruleikasafns á Sauðárkróki.

Málsnúmer 1804004Vakta málsnúmer

Frestað mál frá 822. fundi byggðarráðs þann 5. apríl 2018.
Óskað var eftir í byggðarráði að sérfróður aðili sem ekki væri tengdur sveitarfélaginu legði mat á heildarkostnaði sveitarfélagsins vegna langtímaskuldbindinga og ávinning af framlagi þess til verkefnisins og annarra ráðstafanna sem af því hljótast, svo sem hvað varðar aðstöðu, stoðþjónustu,leigu, skatttekna, ívilnanir og fleiri þætti er varða aðkomu sveitarfélagsins að svo viðamiklu langtímaverkefni.
Fyrir fundinum liggur samantekt Deloitte um mat á heildaráhrifum verkefnisins þar sem fram kemur að ávinningur sveitarfélagsins er um 6.5 milljónir á hverju ári á samningstímanum eða um 195 milljónir króna.

Bjarni Jónsson (Vg og óháðir) óskar bókað:
Ekki hefur enn verið unnin fagleg óháð úttekt á heildarskuldbindingum sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika ehf.

Stefán Vagn Stefánsson (B) og Sigríður Svavarsdóttir (D) óska bókað:
Fyrir liggur úttekt á heildarskuldbingingum sveitarfélagsins frá Megin lögmannstofu og samantekt frá Deloitte vegna verkefnisins eins og ákveðið var að kalla eftir í byggðarráði.

Bjarni Jónsson (Vg og óháðir) óskar bókað:
Minnisblað lögmanna sveitarfélagsins hjá Megin, sem unnu að sjálfri samningagerðinni og sjá um að svara fyrir hönd meirihlutans kærum og fyrirspurnum stjórnvaldsaðila vegna ólögmætrar leyndar og málsmeðferðar er ekki tækt sem fagleg óháð úttekt utanaðkomandi aðila. Enda er þar einnig ekki tekið tillit til mikilvægra stórra og augljósra skuldbindinga og áhrifum þeirra á rekstur sveitarfélagsins til lengri tíma litið.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir (K-lista) óskar bókað:
Fyrir liggja úttektir á skuldbindingu sveitarfélagsins líkt og ég óskaði eftir. Mikilvægt er að þær verði nýttar til að leggja mat á verkefnið áður en ákvarðanir verða teknar.

4.Tillaga um að Sv. Skagafjörður tilkynni Samkeppniseftirlitinu um fyrirhugaðan stuðning við Sýndarveruleika ehf.

Málsnúmer 1805008Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi tillaga:
Byggðaráð samþykkir í samræmi við 31. gr. Samkeppnislaga, að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um þá fjárhagslegu aðstoð, ívilnanir og skuldbindingar sem það hefur í hyggju að undirgangast vegna samstarfssamninga við Sýndarveruleika ehf.

Greinargerð.
Í 31. gr. samkeppnislaga segir: Sveitarfélag, sem hyggst veita fyrirtæki aðstoð af því tagi sem um getur í 61. gr. EES-samningsins, skal tilkynna Samkeppniseftirlitinu um hina fyrirhuguðu aðstoð.
Telji Eftirlitsstofnun EFTA að aðstoð, sem sveitarstjórn hefur tekið ákvörðun um að veita, brjóti gegn 61. gr. EES-samningsins skal Samkeppniseftirlitið tilkynna það sveitarstjórn. Samkeppniseftirlitið getur fylgt eftir framkvæmd slíks úrskurðar með álagningu févítis, sbr. 3. mgr. 24. gr.
Verði að afturkalla ákvörðun um ríkisaðstoð eða annan fjárhagsstuðning úr opinberum sjóðum vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skulu stjórnvöld, að undangenginni ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um endurgreiðslu, gera ráðstafanir til þess að endurheimta aðstoðina frá þiggjanda hennar. Þiggjanda aðstoðar ber að greiða vexti, sem Eftirlitsstofnun EFTA ákveður, af fjárhæð þeirri sem hann er endurkrafinn um. Vextir skulu reiknaðir frá þeim degi er þiggjanda var fengin aðstoðin til umráða og fram til þess dags að hún er endurgreidd. Afturköllun samkvæmt málsgrein þessari skapar sveitarfélagi eða ríkissjóði ekki skaðabótaskyldu gagnvart þeim sem ákvörðun beinist að eða telja sig að öðru leyti bíða tjón af afturkölluninni. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2005044.html

Í 61 gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið segir um aðstoð opinberra aðila við fyrirtæki á samkeppnismarkaði: 1. Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1993002.html
Bjarni Jónsson, Vg og óháð

Hvernig sem samningi við Sýndarveruleika ehf. lýkur þá er ljóst að á móti hugsanlegu framlagi sveitarfélagsins verður skuldbinding af hálfu Sýndarveruleika ehf. sem að verulegu leyti vegur upp það framlag. Hvernig þessu verður nákvæmlega háttað ræðst ekki fyrr en lokið er öllum þeim viðaukum sem ráðgert er að verði gerðir við samstarfssamning sveitarfélagsins við félagið. Fyrr er ekki tímabært að senda inn tilkynningar um samninginn til Samkeppniseftirlitsins eða annað. Þess utan er nauðsynlegt að hafa hugfast að EES samningurinn og aðrar Evrópureglur heimilar í mörgum tilvikum opinbera aðstoð sé hún hófleg og fallin til þess að greiða fyrir nýsköpun og þróun atvinnulífs, einkum á svæðum þar sem þess er sérstaklega talin þörf.
Byggðarráð sammþykkir að fresta afgreiðslu tillögunnar þar til öll gögn í málinu liggja fyrir.

5.Fyrirspurn um framkvæmdir við Aðalgötu 21a

Málsnúmer 1804169Vakta málsnúmer

Frestað mál frá 826. fundi byggðarráðs þann 26. apríl 2018.
Fram lögð fyrirspurn til sveitarstjóra og formanns byggðarráðs:
Hvað nema þeir reikningar hárri upphæð sem Sveitarfélaginu Skagafirði hafa borist á árinu vegna byggingarstjórnar, verkstýringar og framkvæmda við Aðalgötu 21a (fastanr. 213-1147) og Aðalgötu 21b, (fastanr. 2131148) á Sauðárkróki og hvað hefur verið greitt fyrir þessi verk til þessa?
Bjarni Jónsson, VG og óháðum
Sigurjón Þórðarson K- lista
Samkvæmt bókhaldi sveitarfélagsins er búið að bóka eftirfarandi kostnað á verkið:
5.529 mkr. vegna framkvæmda og 3.062 mkr vegna verkfræði- og arkitektaþjónustu.

6.Austurgata 5, 214-3592 - kauptilboð

Málsnúmer 1805001Vakta málsnúmer

Lagt fram kauptilboð í fasteignina Austurgata 5, Hofsósi, fastanr. 214-3592, frá Eddu Þórey Guðnadóttur.
Byggðarráð samþykkir að hafna tilboðinu.

7.Austurgata 5, 214-3592 - kauptilboð

Málsnúmer 1805002Vakta málsnúmer

Lagt fram kauptilboð í fasteignina Austurgata 5, Hofsósi, fastanr. 214-3592, frá Þorgrími Ómari Tavsen og Dóru Ingibjörgu Valgarðsdóttur.
Byggðarráð samþykkir að hafna tilboðinu.

8.Viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2018

Málsnúmer 1805012Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að viðauka númer 3 við fjárhagsáætlun ársins 2018. Gerir viðaukinn ráð fyrir hækkun á fjárfestingarlið eignasjóðs um 69,3 milljónir króna og lækkun handbærs fjár um sömu upphæð.
Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka númer 3 við fjárhagsáætlun ársins 2018 og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Aðalgata 24

Málsnúmer 1803193Vakta málsnúmer

Á 823. fundi byggðarráðs þann 12. apríl 2018 var sveitarstjóra falið gera kauptilboð í fasteignina Aðalgata 24, fastanúmer 213-1162. Lagt fram gagntilboð frá Tengli ehf., eiganda fasteignarinnar.
Byggðarráð samþykkir gagntilboð Tengils ehf.
Bjarni Jónsson óskar bókað að hann standi ekki að afgreiðslu málsins.

10.Fasteignir við Hásæti 5a-5d

Málsnúmer 1804070Vakta málsnúmer

Málið áður á dagskrá 825. fundar byggðarráðs þann 26.04. 2018. Akrahreppur hefur samþykkt tilboð sveitarfélagsins í eignarhlut hreppsins í fasteignunum Hásæti 5a-5d.
Byggðarráð samþykkir að kaupa eignarhlut Akrahrepps í fasteignunum Hásæti 5a-5d.

11.Beiðni um lækkun fasteignaskatts

Málsnúmer 1804210Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn dagsett 27. apríl 2018 frá Húsfélaginu Víðigrund 5 (Oddfellowreglan), um niðurgreiðslu fasteignaskatts skv. reglum um styrki til greiðslu fasteignaskatts skv. 2. mgr. 5.gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.
Byggðarráð samþykkir að veita 30% styrk vegna álagðs fasteignaskatts 2018 af félagsheimili.

12.Litla-Gröf 145986 - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

Málsnúmer 1804215Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur úr máli 1804388, dagsettur 27. apríl 2018, frá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra. Óskað er eftir umsögn um umsókn Karuna ehf., kt. 680809-1000, um leyfi til að reka gististað í flokki III að Litlu-Gröf, 551 Sauðárkróki.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

13.Leikskólinn á Hofsósi

Málsnúmer 1608223Vakta málsnúmer

Að ósk Bjarna Jónssonar (Vg og óháð) er þetta mál tekið á dagskrá.
Lögð fram svohljóðandi bókun 123. fundar fræðslunefndar frá 6. september 2017. "Grunnteikningar af nýbyggingu af leikskólanum Tröllaborg á Hofsósi lagðar fram til kynningar. Verið er að vinna kostnaðargreiningu og frekari hönnun. Ítrekað er að verkinu verði hraðað eins og kostur er."
Einnig lagðar fram teikningar sem vísað er til í ofangreindri bókun.

14.Rekstrarupplýsingar 2018

Málsnúmer 1805011Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar upplýsingar um rekstur sveitarfélagsins og stofnana fyrir tímabilið janúar-mars 2018.

Fundi slitið - kl. 11:23.