Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

64. fundur 04. október 2023 kl. 14:10 - 16:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Beiðni um viðræður varðandi landamerki að Sjávarborg 1, 2, og 3

Málsnúmer 1907144Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir á 875. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Skipulagsfulltrúi og starfsmenn hafa aflað margvíslegra gagna, m.a. frá eigendum Sjávarborgar 1, 2 og 3, og fyrir liggja nokkrar sviðsmyndir túlkana á kaupsamningi á milli Árna Daníelssonar og hreppsnefndar Sauðárkrókshrepps, dags. 8. mars 1934, um kaup hreppsins á hluta úr landi Sjávarborgar, og afmörkun hins selda lands. Sæunn Kolbrún Þórólfsdóttir skipulagsfulltrúi tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
Byggðarráð felur sveitarstjóra, formanni byggðarráðs og skipulagsfulltrúa að eiga fund með fulltrúum Sjávarborgar 1, 2 og 3 um hinar ólíku sviðsmyndir til að fá fram afstöðu þeirra til málsins.

2.Jafnréttisstefna og -áætlun

Málsnúmer 2306298Vakta málsnúmer

Lögð fram uppfærð jafnréttisstefna og aðgerðaáætlun Skagafjarðar í einu skjali. Áður kynnt á 55. fundi byggðarráðs þann 4. júlí 2023. Hrefna Gerður Björnsdóttir mannauðsstjóri sveitarfélagsins sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Byggðarráð samþykkir jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun Skagafjarðar og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

3.Ósk um framlengingu á samningi um rekstur sundlaugar að Sólgörðum

Málsnúmer 2307008Vakta málsnúmer

Erindið áður á 56. fundi byggðarráðs þann 12. júlí 2023 og 63. fundi þann 26. september 2023. Lagður fram tölvupóstur dagsettur 29. júní 2023 frá Ólöfu Ýrr Atladóttur f.h. Sótahnjúks ehf. þar sem óskað er eftir því að ganga til viðræðna við Skagafjörð um áframhaldandi rekstur Barðslaugar að Sólgörðum. Byggðarráðsfulltrúar heimsóttu fulltrúa Sótahnjúks ehf. að Sólgörðum í Fljótum til að kynna sér aðstæður og þær endurbætur sem gerðar hafa verið á leigutímanum. Byggðarráð þakkar gott samstarf á leigutímanum. Ekkert framlengingarákvæði er í núgildandi rekstrarsamningi sem rennur út þann 31. desember 2023 og sveitarfélaginu skylt að auglýsa reksturinn til leigu nema sveitarfélagið taki hann yfir.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að sjá um að auglýsa rekstur sundlaugarinnar að Sólgörðum til leigu frá og með 1. janúar 2024.

4.Skipan í samgöngu- og innviðanefnd SSNV

Málsnúmer 2309259Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 6. september 2023 frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, þar sem óskað er eftir tilnefningu eins fulltrúa frá Skagafirði í samgöngu- og innviðanefnd SSNV.
Byggðarráð samþykkir að tilnefna Regínu Valdimarsdóttur sem aðalfulltrúa og til vara Pétur Örn Sveinsson.

5.Fundur um byggðakvóta o.fl.

Málsnúmer 2309266Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 27. september 2023 þar sem Magnús Jónsson formaður Drangeyjar, smábátafélags Skagafjarðar, óskar eftir fundi með byggðarráði til að ræða málefni smábátaútgerðarinnar, einkum byggðakvóti, hafnarmál o. fl.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að boða forsvarsmenn Drangeyjar, smábátafélags og FISK Seafood á fund ásamt fulltrúum atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar.

6.Flugklasinn Air 66N - styrkbeiðni

Málsnúmer 2309281Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf dagsett 28. september 2023 frá Markaðsstofu Norðurlands varðandi verkefnið Flugklasinn Air66N. Óskað er eftir aðkomu sveitarfélagsins að verkefninu með framlagi sem nemur 300 kr. á hvern íbúa á ári í þrjú ár (2024-2026).
Byggðarráð samþykkir að hafna erindinu.

7.Uppsögn á hólfi 10 og nafnaskipti á 16

Málsnúmer 2308063Vakta málsnúmer

Byggðarráð samþykkti á 59. fundi sínum þann 23. ágúst 2023 að auglýsa hólf númer 10 og 16 verði auglýst til leigu. Umsóknir bárust frá Guðrúnu Þ. Ágústsdóttur og Gunnari Jóni Eysteinssyni um hólf nr. 10 (Bræðraborgartúnið) og Jón Gísli Jóhannesson um hólf nr. 16 (Gíslatún). Hólfin verða leigð frá 1. janúar 2024.
Dregið var á milli Guðrúnar og Gunnars og varð Guðrún hlutskarpari og samþykkir byggðarráð að hún fái hólf númer 10 til leigu og Jón Gísli hólf nr. 16. Hólfin eru leigð til fimm ára. Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að sjá um að gera leigusamninga um hólfin.

8.Samþykkt um búfjárhald

Málsnúmer 2210256Vakta málsnúmer

Samþykkt um búfjárhald í þéttbýli í Skagafirði, nr. 1264 frá 2015, hefur verið til umræðu í landbúnaðarnefnd um nokkurt skeið. Landbúnaðarnefnd samþykkti á 11. fundi sínum þann 12. september 2023 breytingar á samþykktinni og vísaði henni til afgreiðslu byggðarráðs.
Byggðarráð samþykkir framlagða samþykkt með áorðnum breytingum á 7. og 8. grein og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Reglur Skagafjarðar um notendasamninga

Málsnúmer 2306220Vakta málsnúmer

Lagðar fram reglur Skagafjarðar um notendasamninga. Á 16. fundi félagsmála- og tómstundanefndar var eftirfarandi bókað: "Lagðar fram nýjar, ósamþykktar reglur Skagafjarðar um notendasamninga sbr. 28.gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og 10.gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Við framkvæmd reglna þessara skal framfylgja þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist og þá sérstaklega samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Reglurnar voru unnar af aðilum fagráðs málefni fatlaðs fólks sem samþykkti reglurnar fyrir sitt leyti í ágúst sl. og vísaði þeim til umfjöllunar framkvæmdaráðs og til afgreiðslu hjá hverri sveitarstjórn aðildarfélaga þjónustusamnings um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra. Framkvæmdaráð fjallaði um reglunar á fundi sínum 11.september sl. Málið áður á dagská félagsmála- og tómstundanefndar 26.júní sl."
Byggðarráð samþykkir reglurnar og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

10.Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga 2024-2038 og aðgerðaráætlun 2024-2028

Málsnúmer 2310006Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 29. september 2023 frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, 182. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 13. október 2023.

11.Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um Tröllaskagagöng

Málsnúmer 2310004Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 29. september 2023 þar sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. 48. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 13. október 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkominni þingsályktunartillögu um að innviðaráðherra verði falið að hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.
Sveitarfélagið Skagafjörður og Akureyrarbær hafa á undanförnum misserum lagt þunga áherslu á að hagkvæmni og samfélagsleg áhrif með tilkomu Tröllaskagaganga verði könnuð til hins ítrasta. Sveitarfélögin sendu m.a. áskorun til stjórnvalda í febrúar árið 2019, þess efnis að þau fjármagni grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga. Fyrirfram er ljóst að með tilkomu Tröllaskagaganga myndi vinnusóknarsvæði á Mið-Norðurlandi stækka verulega og þjóðhagsleg og samfélagsleg áhrif yrðu mikil. Samgöngubót sem þessi myndi styrkja Mið-Norðurland verulega sem raunverulegan valkost við höfuðborgarsvæðið og styrkja svæðið á margháttaða vegu. Eru þá ótalin öryggissjónarmiðin en þau hafa endurspeglast vel í vetur í þeirri tíðu lokun vega sem verið hefur á Mið-Norðurlandi.
Nefna má að í skýrslu Háskólans á Akureyri frá því sumarið 2022 eru skoðaðir 3 kostir í Tröllaskagagögnum og fá Skíðadalsgöng, úr Hörgárdal til Skíðadals og þaðan áfram til Kolbeinsdals, bestu einkunnina. Við þau styttist leiðin á milli Akureyrar og Reykjavíkur um 17,3 km, leiðin á mili Akureyrar og Sauðárkróks, stærstu bæja Norðurlands, um 39,6 km og á milli Sauðárkróks og Dalvíkur um 53,7 km. Reiknuð er út jákvæð arðsemi af göngunum, þau talin henta mjög vel til gjaldtöku, tenging myndi opnast verulega á milli svæða þar sem lítil samskipti eru í dag og segja skýrsluhöfundar að göngin „lágmarki vegalengdir og „dragi“ bæina á Norðurlandi eins mikið saman og hægt er. Þau myndu því hámarka breytingar á samskiptum.“ Skýrsluhöfundar segja einnig að „líkleg áhrif með hliðsjón af opinberum markmiðum á sviði byggðaþróunar yrðu mjög jákvæð.“
Með tilkomu Tröllaskagaganga yrði því unnt að tryggja mun betur samgöngur á milli stærstu þéttbýlisstaða á Mið-Norðurlandi, auka öryggi vegfarenda, bæta öryggi þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, styrkja samfélögin á svæðinu, stækka vinnusóknarsvæði, efla ferðaþjónustu og svona mætti lengi halda áfram. Öll teikn eru á lofti um að hér sé um að ræða einhverja þjóðhagslega hagkvæmustu samgöngubót sem hægt er að ráðast í á landsbyggðinni og því afar brýnt að nú þegar verði hafin vinna við rannsóknir, frumhönnun og útreikninga á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.

12.Bréf til sveitarfélaga um innviði fyrir orkuskipti

Málsnúmer 2309262Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf til sveitarfélaga dagsett 26. september 2023 frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu varðandi innviði fyrir orkuskipti. Ráðuneytið vill hvetja sveitarfélög að leita til sviðs loftslagsbreytinga, orkuskipta og nýsköpunar eða Orkuseturs hjá Orkustofnun með leiðbeiningar og ábendingar um uppbyggingu innviða vegna orkuskipta.

Fundi slitið - kl. 16:15.