Fara í efni

Vorfundur Samtaka félagsmálastjóra á Íslandi haldinn í Skagafirði

22.05.2019
Á myndinni eru þau Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem var félagsmálastjóri hér fyrir aldamótin, Gunnar Sandholt, sem tók við af Regínu árið 2000 og núverandi félagsmálastjóri, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, sem tók við starfinu 2018.

Vorfundur Samtaka félagsmálastjóra á Íslandi var haldinn í Varmahlíð 16.- 17. maí og hafði félagsþjónusta fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar veg og vanda af undirbúningi og móttöku. Dagskráin var metnaðarfull og var áhersla lögð á þjónustu við börn.  Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra var gestur fundar ásamt Ernu K. Blöndal skrifstofustjóra barna- og fjölskyldumála ráðuneytisins.  Ráðherra fór ítarlega yfir þá vinnu sem er í gangi í málefnum barna innan ráðuneytisins og átti milliliðalaust og mikilvægt samtal við félagsmálstjóra.  Aldís Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri Húsnæðisbótasviðs Íbúðalánasjóðs fjallaði um samstarf sjóðsins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Kópavogs um reynsluverkefni er varðar afgreiðslu á sérstökum húsnæðisstuðningi.  Karólína Gunnarsdóttir forstöðumaður hjá fjölskyldusviði Akureyrarbæjar fjallaði um nýjungar í þjónustu þeirra á sviði barnaverndar og félagsþjónustu. Að auki  var farið vítt og breitt yfir málefni sem snúa að velferðarþjónustu sveitarfélaganna sem eru allmörg. Þjónusta sveitarfélaganna er í stöðugri þróun og endurskoðun og er mikill vilji hjá þeim til breytinga og umbóta.  Að loknum fundarhöldum var gestum boðið í kynnisferð og var m.a. farið í heimsókn í verslun H. Júlíussonar, Sýndarveruleikasetrið 1238 The Battle of Iceland og Mjólkursamlag KS.