Fara í efni

Vísnakeppni Safnahússins - Ýmsar sögur segja má

13.04.2016
Safnahús Skagfirðinga

Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga er fastur liður í aðdraganda Sæluviku Skagfirðinga og nýtur mikilla vinsælda. Margir glíma við fyrripartana og senda inn botna sem og semja vísur um fyrirfram gefið efni. Safnahús Skagfirðinga stendur enn vaktina og sendir út fyrriparta til hagyrðinga sem fyrr og verður hún með sama sniði og undanfarin ár.

 Hagyrðingar eru nú beðnir um að yrkja um komandi forsetakosningar þó ekki sé útséð með það enn hversu margir verði í framboði. Einnig er fólk hvatt til að botna einn eða fleiri af eftirfarandi fyrripörtum en fyrripartasmiðirnir fengu það hlutverk að leiða sínar smíðar að skemmtilegu mannlífi annars vegar og svo einhverri skagfirskri Íslendingasögupersónu. Voru þeir samtaka um það hver væri aðal garpurinn.

 

Hrafna-Flóki Fljótin nam

fyrir ævalöngu.

 

Hún sem Hrafna Flóki fann

er fegurst allra sveita

 

Alltaf finnst mér æðislegt

upphaf sæluviku.

 

Ýmsar sögur segja má

af Sæluvikum góðum.

 

 

Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar  fyrir bestu kosningavísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis vísu.

Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi 550 Sauðárkróki í síðasta lagi miðvikudaginn 20. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dulnefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti  á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni áður en vísurnar fara til dómnefndar.

 

Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 24. apríl er Sæluvika Skagfirðinga verður formlega sett.

/PF