Fara í efni

Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2024

09.04.2024
Páll Friðriksson, fyrrum umsjónarmaður Vísnakeppni Safnahússins, afhendir verðlaun fyrir tíu árum. Verðlaunahafarnir Benedikt Benediktsson bóndi á Vatnsskarði fyrir miðju og Gunnar Rögnvaldsson frá Hrauni á Skaga til hægri. MYND: FEYKIR

Nú, sem áðurgengin ár, stendur Safnahús Skagfirðinga fyrir vísnakeppni. Má segja að hún sé mörgum árviss upphitun fyrir Sæluviku. Reglur eru sem fyrr skýrar og einfaldar; í fyrsta lagi að botna fyrirfram gefna fyrriparta og í öðru lagi að semja vísu um tiltekið efni. Ekki er nauðsynlegt að botna alla fyrripartana og allsendis í lagi að senda inn einungis eina vísu. Nauðsynlegt er þó að þáttakendur haldi sig við ferskeytluformið.

Efnistök fyrripartanna eru að þessu sinni, samkomulagið eða er réttara að segja ósamkomulagið á stjórnarheimilinu. Óveður, ófærð á vegum og mikil frost hafa þreytt landann svo fólk kemur misjafnlega vel undan vetri.

 

Stjórnvaldanna þrenning þrá,
þreyir ennþá völdin.

 

Ríkisstjórnin stendur keik
þó stöðugt fylgi tapi.

 

Hugarfjötrar hörfa brátt,
hingað lötrar vorið.

 

Haltur lúinn heldur sljór
höktir út á lífið.

 

Umsjónarmanni þykir mjög freistandi að vísnasmiðir greini framboð og eftirspurn í komandi forsetakosningum og gefi okkur innsýn í framtíðina, hver á sinn hátt, með vísu.

Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir besta botninn og hins vegar fyrir bestu forsetaframboðs/kosninga vísuna. Ítrekað er, að ekki er nauðsynlegt að allir fyrripartar séu botnaðir og leyfilegt er að senda eingöngu staka stöku.

Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga Faxatorgi 55, Sauðárkróki í síðasta lagi á miðnætti 23. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dulnefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi merktu dulnefninu. Einig er hægt að senda vísur og botna á netfangið bokasafn@skagafjordur.is verður þá viðkomandi gefið dulnefni, ef það fylgir ekki með, áður en vísurnar fara til dómnefndar. Úrslit verða tilkynnt við setningu Sæluviku Skagfirðinga, Safnahúsinu á Sauðárkróki 28. apríl.

- - - - -
Það er Sigríður Garðarsdóttir í Miðhúsum í Blönduhlíð sem hefur umsjón með keppninni að þessu sinni.

Frétt af  www.feykir.is