Fara í efni

Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2019

03.04.2019
Safnahús Skagfirðinga

Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga verður haldin í 44. sinn í Sæluviku enda  hefur hún notið mikilla vinsælda allt frá árinu 1976 er hún var haldin í fyrsta sinn. Reglurnar eru einfaldar; annars vegar botna vísnavinir fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki er nauðsynlegt að botna allt og einnig er í lagi að senda bara inn vísu.

Að þessu sinni er vísnaþrautin takmörkuð við héraðið og skal vísan því vera um Skagafjörð.

Fyrri partarnir koma úr öllum áttum svo nú er um að gera að láta ímyndunaraflið ráða för.

 

Sigri hatrið, held ég að

heimurinn muni farast.

 

Vorið nálgast, vinda lægir

vermir sólin dal og grund.

 

Þriðji tugur yfir öld

árin KS telja.

 

Léttur í spori leik ég mér

lausgyrtur að vanda.

 

Kveða skulum kostabrag

komdu með seinnipartinn.

 

Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir bestu vísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis vísu.

Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi 550 Sauðárkróki í síðasta lagi miðvikudaginn 24. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dulnefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti  á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni áður en vísunar fara til dómnefndar.

Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 28. apríl við setningu Sæluviku Skagfirðinga, í Safnahúsinu á Sauðárkróki klukkan 13:00. Umsjónarmaður keppninnar líkt og undanfarin ár er Páll Friðriksson.