Vinaliðaverkefnið hlaut hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2018

Frá veitingu hvatningarverðlauna dags gegn einelti 2018. Mynd Menntamálastofnun.
Frá veitingu hvatningarverðlauna dags gegn einelti 2018. Mynd Menntamálastofnun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti í gær Vinaliðaverkefninu hvatningarverðlaun dags gegn einelti 2018. Guðjón Örn Jóhannsson verkefnastjóri verkefnisins og Selma Barðdal Reynisdóttir, fræðslustjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, tóku við verðlaununum við athöfn sem haldin var í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.

Vinaliðaverkefnið er forvarnarverkefni sem hvetur nemendur til þátttöku í leikjum og annarri afþreyingu í frímínútum. Markmið verkefnisins er að hafa í boði fjölbreytta afþreyingu í löngu frímínútunum þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Verkefnið stuðlar að jákvæðum samskiptum, hreyfingu og vellíðan og vinnur þannig gegn einelti. Nemendur í 3.-7. bekk velja einstaklinga sem fá hlutverk Vinaliða en þeirra verkefni er að hafa umsjón með leikjum og annarri afþreyingu og ganga frá eftir leikina.

Árskóli á Sauðárkróki stjórnar Vinaliðaverkefninu hér á landi en verkefnið kemur upphaflega frá Noregi og hefur náð mikilli útbreiðslu á nokkrum árum. Á vef Menntamálastofnunar segir að verkefnið sé starfrækt í um 1200 skólum á Norðurlöndunum en 46 íslenskir skólar taka þátt í verkefninu