Vígsla Hannesarskjóls

Frá vígslu Hannesarskjóls
Frá vígslu Hannesarskjóls

Í kjölfar setningarhátíðar Sæluviku Skagfirðinga 2017 í Safnahúsi Skagfirðinga var haldin formleg vígsluathöfn Hannesarskjóls á Nöfunum ofan Sauðárkróks en það er hlaðið til heiðurs skagfirska rithöfundinum Hannesi Péturssyni.

Hannes Pétursson er sennilega sá Skagfirðingur á síðari öldum sem þekktastur er fyrir ritstörf. Bókin Jarðlag í tímanum fjallar um uppvaxtarár Hannesar á Sauðárkróki og Skagafirði. Jarðlag í tímanum hefst uppi á Nöfum og endar þar líka og því má segja að Hannesarskjól kallist á við ritverkið, þar sem hann tekur sér stöðu á Nöfunum og „skyggnist yfir svið bernsku sinnar norður í Skagafirði, rifjar upp mannlífið á Króknum, sumrin frammi í sveit, vegagerð á stríðsárunum og dregur upp minnisstæðar myndir af samferðamönnum í listilega smíðuðum frásögnum“.

Hugmyndin að Hannesarskjóli kom frá Sigurði Svavarssyni útgefanda Opnu bókaútgáfu, þ.e. að heiðra Hannes og búa honum minnismerki á Nöfunum með vísan í bókina.

Skeifan veitir vegfarendum skjól en um leið útsýni yfir gamla bæinn á Króknum, sem voru æskuslóðir Hannesar, og Skagafjörðinn í allri sinni dýrð. Inni í skeifunni er bekkur og fyrir framan hann eru tvenn fótspor, annars vegar barns og hins vegar fullorðins manns, sem vísa þannig í frásagnir/minningarbrot bókarinnar. Fyrir ofan bekkinn er koparplatti með tilvitnun í Hannes.

Það er Sveitarfélagið Skagafjörður sem stendur fyrir þessu verkefni en það naut jafnframt stuðnings úr Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga og Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Helgi Sigurðsson hleðslumeistari frá Stóru-Ökrum hlóð skeifuna.

Við vígsluathöfnina í dag fluttu Viggó Jónsson, varaformaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, og Sigurður Svavarsson útgefandi ávörp.

Las Sigurður m.a. kveðju frá Hannesi sem hér fer á eftir:

Kæru Skagfirðingar.

Ég þakka heilshugar þá ræktarsemi og sæmd sem mér hefur nú verið sýnd hér á þessum stað.

Ég get fullvissað ykkur um að flesta daga stend ég í huganum í gömlum sporum mínum hér á Nöfunum og skyggnist yfir svið æskudaga minna. Ekkert landslag hef ég litið sem snart hug minn og hjarta eins varanlega og Skagafjarðarhérað þegar það ljómar frá hafsbrún og fram til inndala. Ég vona að sá mikli sjónarhringur fylgi mér jafn lengi og ég veit til sjálfs mín.

Ég óska ykkur, kæru sýslungar, fremdar og velgengni um allar stundir.

Hannes Pétursson

Hannesarskjól  

Hannesarskjól