Viðburðir á forsælu

Menningarhúsið Miðgarður
Menningarhúsið Miðgarður

Lista- og menningarhátíð Skagfirðinga, Sæluvikan, verður sett næstkomandi sunnudag. Forsælan er komin á skrið og margir viðburðir í boði. Tónlistarveislan, Innansveitarkrónika og sitthvað úr útsveitum, verður á fjölum Menningarhússins Miðgarðs í kvöld, föstudag 24. apríl, og hefst kl 20:30.  Á Kaffi-Krók verður trúbbakvöld þar sem trúbadorinn Bjarki Tryggvason heldur uppi stemmingu.

Á laugardaginn er körfuboltamót Molduxanna í íþróttahúsinu á Sauðárkróki og hefst það kl 12 á hádegi  og kl 13 hefst sýning í reiðhöllinni Svaðastöðum á vegum reiðkennarabrautar Hólaskóla. Tekið til kostanna verður í reiðhöllinni um kvöldið kl 20 en þar fer fram keppni á milli bestu hestamanna landsins og einnig verður skeið- og stjörnusýning valinna hesta. Bútasaumssýningin, sem opnaði í Kakalaskála í Kringlumýri á sumardaginn fyrsta, verður opin milli kl 14 og 17 og Bjarki Tryggvason trúbbar annað kvöldið í röð á Kaffi-Krók.

Það þarf engum að leiðast meðan beðið er eftir setningu Sæluvikunnar.