Víða lokað í dag vegna veðurs

Veturinn heilsar með látum í dag og er appelsínugul viðvörun á Norðurlandi vestra. Víða er röskun á opnunartíma stofnana af þeim sökum. Sundlaugarnar á Hofsósi og í Varmahlíð verða lokaðar a.m.k. eitthvað fram eftir degi, en staðan verður tekin aftur seinna í dag. Héraðsbókasafn Skagfirðinga á Sauðárkróki verður lokað. Starfsemi Húss frítímans fellur niður í dag, en skoðað verður með kvöldopnun þegar líður á daginn. Eins og áður kom fram hér á heimasíðunni þá fellur allt skólahald í grunnskólum Skagafjarðar niður í dag. Ekkert ferðaveður er í dag og fólk hvatt til þess að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Íbúar eru jafnframt hvattir til þess að fylgjast vel með veðurspá.