Fara í efni

Við lok þriðju viku í samkomubanni

03.04.2020
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri

Um síðustu helgi greindust 3 einstaklingar með Covid-19 smit í Skagafirði. Við vonum að viðkomandi líði eftir atvikum vel og fari vel með sig.

Strax var gripið til viðeigandi ráðstafana og þegar þetta er ritað hafa ekki fleiri einstaklingar greinst smitaðir á svæðinu. Í Skagafirði eru nú 37 manns í sóttkví.

Það er afar mikilvægt þegar smit greinast, hvort sem það er innan eða utan Skagafjarðar, að geta rakið ferðir einstaklinga og það hverja þeir hafa hitt. Slík viðbrögð auka líkur á að hægt sé að takmarka verulega útbreiðslu smits. Ég vil því hvetja íbúa Skagafjarðar til að sækja sér smitrakningarappið sem heitir Rakning C-19. Appið hjálpar til við að greina ferðir einstaklinga og rekja saman við ferðir annarra þegar upp kemur smit eða grunur um smit. Því fleiri sem sækja appið, því betri og skilvirkari eru upplýsingarnar sem hægt er að vinna úr því. Appið er bæði fyrir Android- og iOS-tæki og er opið öllum.

Hér er hlekkur á Covid-síðuna þar sem hægt er að hlaða forritinu niður í síma og fá nánari upplýsingar um virkni þess:

https://www.covid.is/app/is

Heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að framlengja til 4. maí þær takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem áttu að falla úr gildi 13. apríl næstkomandi. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Það er því ljóst að eftir páska verður framhald á skerðingu ýmissrar þjónustu sem veitt er af hálfu sveitarfélagsins og fleiri aðila.

Sem fyrr fylgjum við til hins ítrasta fyrirmælum yfirvalda og skulum öll muna að ráðstafanir og viðbrögð sem skipulögð eru af þeirra hálfu eru gerð til þess að að vernda okkur og ekki síst viðkvæmustu hópana í samfélaginu. Veiran hefur því miður þegar tekið sinn toll í formi mannslífa hér á landi og því ítrekað að við gætum vel að fjarlægðarmörkum manna á milli, handþvotti, sprittun o.fl. og slökum hvergi á í þeim efnum.

Fram undan er páskahátíðin og ljóst að hún verður mjög frábrugðin því sem við höfum átt að venjast. Engar samkomur eru skipulagðar og yfirvöld hafa hvatt almenning til að sleppa ferðalögum innanlands meðan á núverandi ástandi varir en ferðast þess í stað innanhúss. Það er fullkomlega eðlilegt að ástandið taki á taugar fólks en það er ekkert annað í stöðunni en að fara að tilmælum Sóttvarnalæknis og Landlæknis ef við ætlum að sigrast á óværunni. Við gerum það saman og við skulum vanda okkur í baráttunni. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að við getum notið útiveru og hreyfingar með okkar nánustu. Slík hreyfing léttir lundina og gerir öllum gott sem geta notið hennar.

Ég vil að lokum þakka starfsmönnum og íbúum sveitarfélagsins enn og aftur fyrir hversu vel allir hafa brugðist við og lagað sig að breyttum aðstæðum, og sveitarstjórn fyrir að taka höndum saman í viðbrögðum við þeirri stöðu sem uppi er. Samtakamátturinn og samstaðan er til hreinnar fyrirmyndar og sýnir hversu gott samfélagið okkar er. Sem betur fer sjá fleiri hve gott er að búa og starfa í Skagafirði en til marks um það er að íbúum sveitarfélagsins heldur jafnt og þétt áfram að fjölga.

 

Með góðri kveðju til ykkar allra og óskir um ánægjulega helgi.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri.