Fara í efni

Verndarsvæði í byggð á Sauðárkróki - Aðalgata 5

08.01.2025
Aðalgata 5 á Sauðárkróki

Hjá byggingarfulltrúa Skagafjarðar liggur fyrir byggingarleyfisumsókn frá eiganda Aðalgötu 5, á Sauðárkróki, um leyfi til að gera breytingar á húsnæðinu. Byggingarár er 1928 og varða breytingarnar útlit og aðgengi að neðri hæð hússins. Aðalinngangur verður færður á suðurhlið og gluggi settur í stað hurðar á austurhlið. Áætlaður verktími er 6 mánuðir.


Framkvæmdin er innan verndarsvæðis í byggð sem er norðurhluti gamla bæjarins á Sauðárkróki, staðfest af ráðherra 11. febrúar 2020.  Samkvæmt greinargerð um verndarsvæði í byggð og Húsakönnun Sauðárkróks frá 2018 hefur húsið miðlungs varðveislugildi sem byggir að mestu á menningarsögulegu gildi. Aftur á móti er gildi þess metið lágt fyrir listrænt og upprunalegt gildi.
Með vísan í 6. gr laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015 ber sveitarstjórn að auglýsa fyrirhugaða framkvæmd áður en ákvörðun er tekin um leyfi til framkvæmda. Þannig fær almenningur og hagsmunaaðilar tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri við sveitarstjórn áður en veitt er framkvæmdaleyfi. 


Gögn um fyrirhugaða framkvæmd liggja frammi til kynningar í ráðhúsi sveitarfélagsins og hér á heimasíðunni frá og með 8. til og með 22. janúar 2025.
Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast í síðasta lagi 22. janúar 2025 til byggingarfulltrúa í ráðhús, Skagfirðingabraut 21 eða á netfangið andrig@skagafjordur.is.

Hér má nálgast gögn um fyrirhugaða framkvæmd.