Fara í efni

Verðlaun veitt á Bessastöðum

02.12.2015
Hanna Dóra Björnsdóttir, Ása Sóley Ásgeirsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson

 Ása Sóley Ásgeirsdóttir, nemandi í 10. bekk Varmahlíðarskóla, hlaut verðlaun síðastliðinn laugardag fyrir verkefni Forvarnardagsins. Af því tilefni var henni boðið til Bessastaða í síðdegisboð ásamt fjölskyldu og skólastjóra. Verðlaunin voru veitt fyrir að leysa ratleik en sex nemendum tókst verkið, þremur grunnskólanemendum og þremur framhaldsskólanemendum. Á heimasíðu Varmahlíðarskóla segir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi veitt verðlaunin við virðulega athöfn og sagt frá þeim góða árangri sem náðst hafi með Forvarnardeginum.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis. Frekari upplýsingar um forvarnardaginn er að finna á heimasíðu verkefnisins.