Vel heppnað fræðsluerindi
Þann 25. nóvember sl. bauð fjölskyldusvið sveitarfélagsins upp á fræðslu fyrir alla áhugasama um velferð barna. Yfirskrift fræðslunnar bar heitið Hvað liggur á bak við erfiða hegðun og var það Aðalheiður Sigurðardóttir, tengslaráðgjafi á sviðinu, sem flutti erindið.
Það var ánægjulegt að sjá hversu margir sóttu fræðsluna, en um 65 manns voru samankomin til þess að hlýða á erindið. Fræðsla sem þessi er liður í stefnu fjölskyldusviðs að efla vitund almennings á þeirri hugarfarsbreytingu sem á sér stað í samfélaginu, um hvernig við hugsum um hegðun og hvernig við skiljum þarfir barna sem tjá sig með hegðun sinni.
Gaman er að greina frá því að fjölskyldusviðið er að vinna að innleiðingu Heillaspora í samstarfi með Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að setja tilfinningalegt öryggi barns í fyrirrúmi og því ljóst að fleiri samskonar erindi verða í boði á komandi ári.