Fara í efni

Varmahlíðarskóli sigraði í sínum riðli í skólahreysti

05.04.2018
Sigurlið Varmahlíðarskóla í Norðurlandsriðli 2018
Í gær þann 4. apríl fór fram keppni í skólahreysti í íþróttahöllinni á Akureyri í Norðurlandsriðli. Það var Varmahlíðarskóli sem fór með sigur af hólmi og Grunnskólinn austan Vatna hreppti annað sætið en þessi sömu lið skipuðu einnig fyrstu tvö sætin í fyrra í sömu röð. Lokakeppnin í skólahreysti fer fram í Reykjavík þann 2. maí næstkomandi þar sem sigurvegarar allra riðlanna keppa um fyrstu sætin.
 
Fulltrúar Varmahlíðarskóla í keppninni að þessu sinni eru öll nemendur í 10. bekk, Guðmundur Smári Guðmundsson, Davíð Einarsson, Stefanía Sigfúsdóttir og Guðný Rúna Vésteinsdóttir. Varamenn voru Daniel Francisco Ferreira og Freydís Þóra Bergsdóttir. Sigurlína H. Einarsdóttir íþróttakennari skólans sá um undirbúning og þjálfun keppenda.
 
Fulltrúar Grunnskólans austan Vatna að þessu sinni voru Ingiberg Daði Kjartansson, Inga Sara Eiríksdóttir, Anna Sif Mainka og Andri Björn Andrason og varamenn Eydís Eir Viðarsdóttir og James Robert Robinson. Um undirbúing og þjálfun sá íþróttakennari skólans Þórunn Eyjólfdóttir.
Árskóli á Sauðárkróki tók ekki þátt í keppninni að þessu sinni.
 
Í Norðurlandsriðlinum voru 10 skólar mættir til leiks úr Húnaþingi, Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og var mikil stemming meðal áhorfenda sem hvöttu sín lið áfram. Úrslitin má nálgast hér á heimasíðu Skólahreystis og myndir frá keppninni eru á  fésbókarsíðu skólahreystis.