Fara í efni

Upplifir þú skerðingu á farsímasambandi?

21.08.2025

Fjarskiptastofa vill koma á framfæri að lokun 2G og 3G farsímaþjónustu hér á landi fer nú fram í áföngum og verður lokið hjá öllum fjarskiptafyrirtækjum í síðasta lagi í árslok 2025.

Síðastliðna áratugi hefur þessi þjónusta þjónað mikilvægu hlutverki, en hún stenst ekki lengur kröfur nútímans um háhraða gagnaflutning og eru 2G/3G netin því víðast hvar í heiminum að víkja fyrir nútímalegri tækni (4G og 5G). Tilgangurinn með innleiðingu þessarar nýju tækni er að bæta upplifun viðskiptavina til lengri tíma og vera í stakk búin til að takast á við áskoranir framtíðarinnar með auknum hraða, betri svartíma o.fl.

Samkvæmt tilkynningu frá Fjarskiptastofu á útbreiðsla farnets (farsímanets) ekki að minnka við lokunina og samkvæmt ákvæðum tíðniheimilda skulu fjarskiptafyrirtæki tryggja sambærilegt þjónustusvæði með nýrri tækni (4G/5G).

Skagafjörður hefur hins vegar fengið talsvert margar ábendingar um versnandi farnetssamband í sveitarfélaginu og bendir íbúum því á eftirfarandi til að leggja því lið að fá bætt úr málum:

Hvað breytist hjá notendum?

  • Símtæki og tæki sem aðeins styðja 2G/3G hætta að virka.
  • Símtæki sem ekki styðja VoLTE (Voice over LTE) eða hafa ekki virkjað þá stillingu hætta að virka.
  • Ýmis tæki til vöktunar, mælinga og stýringa, sem aðeins styðja 2G/3G, hætta að virka.

Tilkynningar um mögulega skerðingu

Ef þú upplifir breytingar á farnetssambandi eftir að 2G/3G sendar hafa verið teknir niður, þá er fyrsta skrefið að athuga hvort tækið þitt styður 4G/5G og hvort framleiðandi/seljandi hefur virkjað VoLTE í tækinu. Þú getur leitað til þíns fjarskiptafyrirtækis og fengið leiðbeiningar. Ef málið leysist ekki, þá geturðu sent ábendingu til Fjarskiptastofu á netfangið fjarskiptastofa@fjarskiptastofa.is með eftirfarandi upplýsingum:

  • Nafn tilkynnanda, símanúmer og/eða tölvupóstfang
  • Staðsetning þar sem skerðingin átti sér stað
  • Hvernig er sambandið núna? (Ekkert / Næst ekki innanhúss / Léleg gæði)
  • Hvernig var sambandið áður?
  • Hvenær varð breytingin?
  • Hjá hvaða fyrirtæki er farsímaþjónustan keypt?
  • Hvaða tegund símtækis er notuð?
  • Er búið að hafa samband við fjarskiptafyrirtækið?

Tenglar á upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum:

Nova: https://www.nova.is/netid/bless-3g

Síminn: https://www.siminn.is/2g-3g

Vodafone: https://vodafone.is/vid-kvedjum-2g-og-3g