Fara í efni

Undankeppni Stíls lokið

29.10.2015
Fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Friðar á Stíl 2015

Undankeppni Stíls, hönnunarkeppni Samfés, fór fram í Húsi frítímans mánudaginn 26. október síðastliðinn. Sex lið tóku þátt að þessu sinni og áttu dómarar erfitt val fyrir höndum segir á heimasíðu Húss frítímans. Dæmt var eftir förðun, hárgreiðslu, kynningu á fatahönnuninni og möppugerð. Dómarar keppninnar voru þær Ásta Búadóttir, Jónína Róbertsdóttir og Lilja Gunnlaugsdóttir. Sigurvegarar kvöldsins voru fjórar hæfileikaríkar stúlkur úr Varmahlíðarskóla þær Þórkatla Björt Sumarrós Þrastardóttir, Álfrún Lilja Þórarinsdóttir,Thelma Björk Sverrisdóttir og Ása Sóley Ásgeirsdóttir. Þær munu fara fyrir hönd Félagsmiðstöðvarinnar Friðar í aðalkeppni Stíls í Hörpu þann 28. nóvember nk.  Þema keppninnar í ár er náttúra.

Markmið hönnunarkeppninar Stíls er að hvetja unglinga til listsköpunar og um leið að gefa þeim aukin tækifæri til frumlegrar hugsunar og sköpunarhæfileika. Tilgangurinn er einnig að vekja jákvæða athygli á því hvað unglingar eru að gera á sviði sköpunar og gefa þeim kost á að koma sínum hugmyndum á framfæri utan félagsmiðstöðvanna. Síðast en ekki síst þá komast unglingarnir í kynni við fleiri sem hafa sama áhugasvið.