Fara í efni

Umsögn við byggðaáætlun 2014-2017

28.02.2014

Á fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 27. febrúar sl. var samþykkt eftirfarandi umsögn við þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017.

 143. löggjafarþing, mál 256, þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017.

  •  Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar mörgum áhersluatriðum sem fram koma í þingsályktunartillögunni, m.a. hvað varðar jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jöfnun lífskjara o.s.frv.
  • Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd telur hins vegar brýnt að stjórnvöld fari raunverulega að vinna eftir þeim áherslum sem birtast í þingsályktunartillögunni þannig að orð sjáist í verki. Því miður hefur raunin verið sú á liðnum árum að byggðaáætlanir Alþingis virðast meira vera unnar af skyldurækni en því að einhver sérstök sannfæring þingheims eða stjórnvalda um nauðsyn slíkrar vinnu liggi þar að baki, eins og best sést á áætluðum fjármunum sem verja á til þátta í framlagðri tillögu eins og uppbyggingar gagnanets á landsbyggðinni, brothættra byggða, dreifingu opinberra starfa o.fl. M.ö.o. skortir mjög á raunverulega eftirfylgni við fögur fyrirheit.
  • Sárlega vantar í tillöguna nánar tímasetta aðgerðaáætlun með vel skilgreindum aðgerðum þar sem nauðsynlegt fjármagn fylgir með til að hrinda þeim í framkvæmd. Það er beinlínis móðgun við íbúa landsbyggðarinnar að setja til málamynda 20 m.kr. í aðgerðir til að dreifa störfum á vegum ríkisins um allt land eða 10 m.kr. til uppbyggingar gagnanets á landsbyggðinni, sem dreifist að auki á 3 ár. Jafnframt er of mikið púður lagt í greiningarvinnu þegar fyrir liggja margvíslegar greiningar sem byggja má tafarlausar aðgerðir á.
  • Fjölmörg atriði vantar jafnframt inn í áætlunina, s.s. hvað varðar rétt landsmanna til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu, aðgengi að almenningssamgöngum líkt og innanlandsflugi á viðráðanlegu verði og stuðning við almenningssamgöngur innan svæða, menntun, lánsfjármögnun sem tekur tillit til annars veruleika í veðum á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæði o.fl. Þau orð sem er að finna um opinbera þjónustu í þingsályktunartillögunni eru því miður veik og engan þunga að sjá í fyrirhugaðri framkvæmd. Til að ná fram nauðsynlegri vigt í ábyrgð á innleiðingu ákveðinna réttinda fyrir borgarana, án tillits til búsetu, þarf markvissa vinnu þar sem jafnframt koma að borðinu leiðtogar jafnt ríkisstjórnar sem stjórnarandstöðu og nauðsynlegt fjármagn eða tilflutningur fjármagns til að hrinda aðgerðum í framkvæmd. Minnt er á að atriði um jafnrétti til búsetu og aðgengi að grunnþjónustu er skýrt orðað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
  • Sömuleiðis þarf að fylgja eftir fyrirheitum í stjórnarsáttmála um uppbyggingu fjarskiptanets og stóraukna ljósleiðaravæðingu með raunverulegum aðgerðum. Þegar er liðið tæpt ár frá ríkisstjórnarmyndun en ekkert bólar á aðgerðum í þessum efnum og ofangreind drög að þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun styrkja ekki tiltrúna á að raunverulegum aðgerðum verði hrint í framkvæmt á næstunni.
  • Nauðsynlegt er að hraða vinnu við uppbyggingu 3ja fasa rafmagns um land allt, sbr. skýrslu vinnuhóps um mat á þörf fyrir þrífösun á dreifiveitusvæðum RARIK og Orkubús Vestfjarða. Leggja þarf fjármagn til þess af skattgreiðslum íbúa og fyrirtækja landsbyggðarinnar sem þannig yrði nýtt í heimabyggð en ekki til byggðaaðgerða á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er boðlegt að umrædd uppbygging verði fjármögnuð með hækkun á raforkuverði til íbúanna.
  • Leggja þarf áherslu á uppbyggingu framhaldsmenntunar, rannsókna og þróunar á landsbyggðinni, jafnt innan grunngreina eins og landbúnaðar og sjávarútvegs, sem annarra gjaldeyrisskapandi greina. Niðurskurður í framhalds- og háskólanámi á landsbyggðinni og tilflutningur og samþjöppun náms til Reykjavíkur ýtir ekki undir að ungt fólk á landsbyggðinni setjist að í heimabyggð. Allar rannsóknir sýna að aðgengi að framhaldsnámi í heimabyggð ýtir undir áframhaldandi búsetu þar og eykur við menntastig íbúanna, sem aftur stuðlar að aukinni þróun og nýsköpun sem helst í hendur við aukna menntun.
  • Þá vantar hróplega inn í kaflann um stuðning við nýfjárfestingu og atvinnuuppbyggingu sambærilegt ákvæði fyrir iðnaðarsvæði í Skagafirði, líkt og á Bakka og í Helguvík, en um árabil hafa heimamenn í Skagafirði unnið að nauðsynlegum undirbúningi vegna koltrefjaframleiðslu og fleiri verkefna. Tímabært er að stjórnvöld fari að sýna stuðning sinn við þær hugmyndir í verki.
  • Afar brýnt er að áætlanir ríkisins verði samþættar og raunverulega unnið með markvissum aðgerðum að því að byggja upp landshlutana þannig að þeir búi við sambærilega þjónustu innan sinna marka. Ekki er boðlegt að á sama tíma og verið er að vinna að sóknaráætlunum, lögregluumdæmum, umdæmum sýslumanna o.s.frv. innan tiltekinna samræmdra landfræðilegra marka – sé stefnan sú að heilbrigðisumdæmi og önnur brýn þjónusta á vegum ríkisins fari á skjön við þá uppbyggingu og eðlilega landfræðilega og samgöngulega afmörkun svæða, með þeim hætti sem að er stefnt með t.d. sameinaða Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Eðlilegra væri að heilbrigðisumdæmin á Norðurlandi væru tvö og heilbrigðisstofnanirnar á Sauðárkróki og Blönduósi tilheyrðu sérstöku heilbrigðisumdæmi á svæðinu.
  • Byggðastefna ríkisins og áætlanir eru reyndar á mörgum sviðum einkar tilviljanakenndar og fá rök að finna fyrir sumum ákvörðunum. Nú nýverið kom t.a.m. út skýrsla um félagshagfræðilega greiningu á framtíð innanlandsflugs en þar var Sauðárkróksflugvöllur ekki hafður með, einn stærri flugvalla landsins. Allir flugvellir í grunnneti gildandi samgönguáætlunar voru með í úttektinni, auk Húsavíkurflugvallar. Þó var á tíma skýrsluritunar flogið til Sauðárkróks 7 sinnum í viku og nú eru uppi umræður, m.a. hjá félagi atvinnuflugmanna, um að Sauðárkróksflugvöllur verði gerður að varaflugvelli alþjóðaflugs vegna margvíslegra kosta s.s. legu, veðurfars og flugskilyrða. Þess má geta að Norðurland vestra er eini landshlutinn utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar sem ekki nýtur stuðnings af hálfu ríkisins við áætlunarflug til og frá höfuðborginni.
  • Nauðsynlegt er að grípa til tafarlausra aðgerða til að rétta við neikvæða byggðaþróun á svæðum sem hafa staðið sterkt en orðið illa úti af völdum niðurskurðar ríkisvaldsins frá efnahagshruninu 2008. Skagafjörður er dæmi um slíkt svæði þar sem fólki hefur fækkað ört í kjölfar gríðarlegrar fækkunar opinberra starfa. Önnur sambærileg svæði eru Norðurþing, Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og Þingeyjarsveit og því má segja að það sem áður var álitið vaxtarsvæði og mótvægi við höfuðborgarsvæðið – Mið-Norðurland – sé nú svæði sem á í mikilli varnarbaráttu. Við slík svæði þarf að styðja og rétta neikvæða byggðaþróun af í stað þess að líta eingöngu til allra smæstu byggðarlaganna.
  • Á undanförnum árum hafa verið birtar ágætar rannsóknir, sem ekki hafa verið hraktar, sem sýna að landsbyggðin borgar mun meira til samfélagsins en hún fær til baka. Íbúar landsbyggðarinnar fá þannig allt að helmingi minni starfsemi og þjónustu ríkisins fyrir skattana sína en íbúar höfuðborgarsvæðisins (Vífill Karlsson 2005, Þóroddur Bjarnason 2011).
  • Með öðrum orðum eru íbúar landsbyggðarinnar að borga gríðarlega skatta sem að stærstum hluta til er varið til uppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Í því hefur hin raunverulega byggðastefna liðinna ára verið fólgin.
    • Ekki er um neinar smávægilegar fjárhæðir að ræða þar en sem dæmi má nefna að skömmu fyrir hrun voru 75% af öllum umsvifum hins opinbera í Reykjavík. Á sama tíma fékk ríkið aðeins rúm 40% skatttekna sinna frá höfuðborginni. Nágrannasveitarfélögin Reykjanes, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur og Seltjarnarnes fengu um 10% af veltu hins opinbera en þaðan komu 31% skattteknanna. Restin af landinu fékk um 15% af opinberum umsvifum en þaðan komu 27% skatttekna (Vífill Karlsson).
    • Annað dæmi er að atvinnusköpun ríkisins á höfuðborgarsvæðinu nam 250 milljörðum króna á árinu 2011 – aðeins á því eina ári (Þóroddur Bjarnason).
  • Frá upphafi 19. aldar hefur þannig sleitulaust verið unnið að markvissri uppbyggingu Reykjavíkur með skipulögðum flutningi og uppbyggingu allra helstu valda- og menningarstofnana landsins þangað. Afleiðingin er sú að fólk eltir eðlilega uppbygginguna og skattana sína og því hefur byggðaþróun síðustu áratuga verið með þeim hætti sem raun ber vitni.
  • Vissulega er ódýrara fyrir ríkisvaldið að byggja upp þjónustu á einum stað, hvort sem um er að ræða Reykjavík eða Sauðárkrók. Það er hins vegar ekki hagkvæmara fyrir íbúana. Verulegur kostnaður myndi fylgja því fyrir barnshafandi konur í Reykjavík að þurfa að fæða börn sín á Sauðárkróki, á sama hátt og verulegur kostnaður fylgir því fyrir barnahafandi konur og fjölskyldur þeirra í Skagafirði að þurfa að fæða börnin á Akureyri. Hið sama gildir um alla aðra heilbrigðisþjónustu sem Skagfirðingar þurfa að sækja út fyrir hérað, það er mjög kostnaðarsamt fyrir íbúana að þurfa þess þótt þessi tilhögun sé ódýrari fyrir ríkið. En þá má spyrja hvort það sé réttlætanlegt að íbúar landsins búi við svo gríðarlega mismunun á þeirri þjónustu sem þeir fá frá ríkinu í stað skattgreiðslna sem þeir inna af hendi.
  • Í Skagafirði kemur þetta greinilega orsakasamhengi á milli þess úr hvaða vösum skattarnir eru greiddir og hvar þeim er varið glöggt í ljós. Afleiðingar niðurskurðar og tilflutnings um 50 opinberra stöðugilda og tilheyrandi opinbers fjármagns frá Skagafirði frá árinu 2008, sem er meiri hlutfallslegur opinber niðurskurður en nokkurt annað sveitarfélag á landinu hefur mátt búa við, birtist í því formi að fyrir utan gríðarlega þjónustuskerðingu fyrir íbúana hafa 158 einstaklingar flutt úr sveitarfélaginu frá 1. janúar 2010 til 5. febrúar 2014. Með öðrum orðum hafa 4% íbúanna flutt frá sveitarfélaginu á aðeins fjögurra ára tímabili.
  • Eins og staðan er nú er óhætt að fullyrða að kominn sé tími á róttæka uppstokkun í byggðaáherslum landsins. Ekki skal fullyrt í þeim ábendingum og athugasemdum sem hér eru sett á blað hver sé besta lausnin í þeim efnum. Margar leiðir þarf að taka þar til skoðunar en vinna þarf hratt og láta hendur standa fram úr ermum. Þrjár leiðir sem a.m.k. þarf að íhuga vel og vandlega eru:
    • a) Skilja mun hærra hlutfall skattgreiðslna eftir í héraði og fela heimamönnum að ákvarða og reka nauðsynlega þjónustustarfsemi. Í nágrannalöndum okkar er almennt viðurkennt að þetta er árangursríkasti þátturinn í eflingu byggða, þ.e. að veita sveitarfélögum meira forræði og ábyrgð á uppbyggingu á sínum svæðum. Farsælast væri ef meirihluti skattgreiðslna landsmanna færi til þjónustu sem veitt er í heimabyggð en minnihlutinn til reksturs miðlægrar þjónustu ríkisins.
    • b) Flytja stofnanir í auknum mæli til landsbyggðarinnar og efla grunnþjónustu þar á nýjan leik.
    • c) Lækka skatta á landsbyggðinni og nýta skattkerfið með ýmsum hætti til að jafna aðstöðuna á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, líkt og aðrar nágrannaþjóðir gera, t.d. með lægri vöxtum á námslánum, lægri fyrirtækjasköttum o.s.frv. Brýnt mál sem þarf að taka til tafarlausrar skoðunar í ljósi stöðu verslunar á landsbyggðinni lýtur að endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vöruflutninga tengdum verslun í dreifbýli, líkt og gert er varðandi flutningsjöfnun fyrir framleiðslustarfsemi.