Fara í efni

Umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2017

15.09.2017
Umhverfisviðurkenningar 2017

Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar voru veittar í þrettánda sinn í gær í Húsi frítímans á Sauðárkróki. Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar hefur séð um framkvæmdina öll árin sem verðlaunin hafa verið veitt. Í ár voru veittar átta viðurkenningar.

Umhverfi og umgengni í sveitarfélaginu er stöðugt að batna og í ár var hægt að veita viðurkenningar í öllum flokkum.

Soroptimistaklúbburinn tók saman stuttan texta um hvern og einn viðurkenningarhafa. Eftirfarandi hlutu viðurkenningu.

Býli með búskap sem hlaut viðurkenninguna í ár var Gil. Þar búa Ómar Jensson og Vilborg Elísdóttir, ásamt foreldrum Ómars, þeim Pálínu Skarphéðinsdóttur og Jens Guðmundssyni. Gil er stórbýli þar sem rekinn er kúabúskapur með myndarbrag og staðarlegt heim að líta. Þar eru 2 íbúðahús, bæði með fallega og ræktarlega garða. Útihúsin eru stór og mikil og í kringum þau ber eðlilega mikið á heyrúllum og tækjum en þeim er snyrtilega raðað upp.

Dýjabekkur fékk viðurkenninguna í ár í flokknum býli án búskapar. Þar búa hjónin Solveig Arnórsdóttir og Halldór Hafstað og fluttu þau þangað 1993. Dýjabekkur er örnefni í landinu, alllangt holt, vestan þjóðvegar. Býlið var reist syðst á dýjabekknum. Þar er einnig annað timburhús er nefnist Dýjaból. Byrjað var að gróðursetja tré í landinu uppúr 1980 og hafa þau vaxið og dafnað og er nú orðinn mikill skógur.
Allt umhverfi er mjög snyrtilegt og ásýnd falleg og ber þess merki að vel hafi verið hugsað um allt nærumhverfi öll þessi ár.

Á Austurgötu 16 á Hofsósi er annar af tveimur görðunum sem hlutu viðurkenningu í ár. Bryndís Óladóttir og Pálmi Rögnvaldsson hafa af mikilli natni byggt þennnan garð upp og hafa aldrei gefist upp á sjávarseltunni eða miklum snjóþyngslum sem oft sjást þarna. Í garðinum er fjölbreytt úrval plantna og blóma og einng er þarna afar snyrtilegt matjurtabað. Sunnan við fallegt húsið er notalegur samverustaður, sem búið er að skýla með gróðri og skjólveggum.

Hinn garðurinn er að Lerkihlíð 1 á Sauðárkróki. Þar búa Margrét Aðalsteinsdóttir og Örn Ragnarsson. Þar er ákaflega vel hirtur garður með tré og runna sem aðalgróður. Hann er mjög stílhreinn og smekklegur í alla staði, heildarmynd húss og garðs til fyrirmyndar. Hellulögn og heildarmynd húss og lóðar er góð.

Hótelið að Deplum í Fljótum hlaut viðurkenningu fyrir snyrtilegustu lóð fyrirtækis. Þangað er snyrtilegt og fallegt heim að líta, lóð og byggingar frágengnar og falla einstaklega vel inn í umhverfið. Allir litir á mannvirkjum eru dempaðir jarðarlitir. Girðingum er vel við haldið og geymsla tækja til fyrirmyndar, öllu raðað og vel fyrir komið. Náttúran fær að njóta sín og stígur kringum húsin lagður með stórum steinum úr náttúrusteini. Heildarmyndin er falleg og í einstaklega mikilli sátt við fallegt umhverfið í Fljótunum.

Sundlaugin á Hofsósi  fékk viðurkenningu fyrir snyrtilegasta umhverfi opinberrar stofnunar. Það þarf varla að eyða mörgum orðum í lýsingu á þessum stað, svo þekkt er sundlaugin og umhverfi hennar enda fengið bæði viðurkenningar og verðlaun. Laugin  og umhverfið er í raun algjört augnayndi og við hönnun hennar og byggingu var þess gætt að hún félli inn í umhverfið og spillti ekki útsýninu út á fjörðinn. Þetta er trúlega sá staður sem einna mest er sóttur hér í sveitarfélaginu.

Dalatún á Sauðárkróki fékk viðurkenningu fyrir snyrtilegustu götuna 2017. Ásýnd götunnar er mjög snyrtileg, garðarnir afar vel hirtir og húsin eru falleg  og reisuleg og vel við haldið. Í götunni eru opin og gróin svæði sem létta ásýndina og gera götumyndina jafnframt hlýlegri. Íbúarnir eru greinilega samtaka um að hafa snyrtilegt í kringum sig.

Viðurkenningu fyrir einstakt framtak fór að þessu sinni til Rósmundar Ingvarssonar, frá Hóli, sem býr í Varmahlíð. Rósmundur gengur á undan með góðu fordæmi og sýnir okkur að umhverfismálin skipta alla máli. Árum saman hefur hann farið um og týnt rusl meðfram þjóðvegum og á víðavangi og ekki bara í hans nánasta umhverfi. Þetta hefur hann gert að eigin frumkvæði og með því minnt nágranna sína á hvað það skiptir miklu máli að allir leggist á eitt og sýni umhverfi sínu virðingu.
Með þessari viðurkenningu var honum þakkað fyrir þetta óeigingjarna starf og vonandi hvetur það aðra áfram.

Við óskum öllum viðurkenningarhöfum til hamingju og þökkum Soroptimistaklúbbi Skagafjarðar fyrir þeirra vinnu.