Fara í efni

Tímabundinn styrkur til stuðnings menningarstarfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði

01.03.2021

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd auglýsir eftir umsóknum um tímabundinn styrk til stuðnings menningarstarfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði. Styrkurinn er liður í viðspyrnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna COVID-19 til að styðja við heimili, fyrirtæki og félagasamtök í Skagafirði.

Umsækjendur eru þeir sem orðið hafa fyrir tekjutapi vegna menningarviðburða sem ákveðið hefur verið að fella niður eða breyta verulega vegna samkomubanns af völdum COVID-19 og hægt er að sýna fram á að hafi veruleg áhrif á rekstur og starf viðkomandi aðila.

Umsókn skal fylgja stutt greinargerð þar sem gerð er grein fyrir tekjutapi vegna viðburðar. Einnig þarf að gera grein fyrir áætluðum kostnaði vegna viðburðar sem ekki kemur til greiðslu, þ.e.a.s. fellur niður.

Gera þarf grein fyrir í umsókn hvaða áhrif tekjutap viðburðar hefur haft á umsækjanda og hvernig brugðist hefur verið við til að lágmarka tjón.

Gera þarf grein fyrir öðrum stuðningi sem sótt er um vegna stöðunnar s.s. frá sérsamtökum eða ríkisvaldi. Þeir aðilar sem hlotið hafa stuðning frá hinu opinbera vegna Covid-19 eiga ekki rétt á styrk.

Tímabil menningarviðburða sem styrkhæfir eru í þessari sértæku úthlutun er frá 1. mars 2020 til loka árs 2020. Þeir viðburðir sem ákveðið var innan þessa tímabils að fella niður eða breyta verulega umfangi þeirra falla undir þessa úthlutun.

Nánari upplýsingar veita starfsmenn nefndarinnar, Sigfús Ólafur Guðmundsson (sigfusolafur@skagafjordur.is) og Heba Guðmundsdóttir (heba@skagafjordur.is).

Umsóknarfrestur er til og með 16.03.2021