Fara í efni

Tilkynning vegna geymslusvæða Skagafjarðar, Sauðárkróki og Hofsósi – Fjarlæging allra lausamuna og endurnýjun leigusamninga.

20.06.2025

13. júní 2025

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur um árabil leigt út pláss fyrir gáma á geymslusvæðum sveitar­félagsins að Borgarsíðu 6, Sauðárkróki og Norðurbraut á Hofsósi. Á undanförnum árum hefur safnast þar upp mikið af lausamunum, svo sem bifreiðum, landbúnaðarvélum og öðrum tækjum og tólum sem liggja á víð og dreif um svæðið, í misgóðu ástandi, en eru ekki höfð í gámum. Nú er svo komið að sveitarfélagið telur brýnt að ráðast í hreinsun á geymslusvæðunum, bæði til að koma ásýnd þeirra í betra horf en ekki síður til að koma í veg fyrir að hætta skapist vegna þeirra lausamuna sem liggja þar eins og hráviði. Jafnframt er þörf á að koma skikki á svæðið svo unnt sé að nýta það með hagkvæmari og skynsamlegri hætti en nú er gert.

Af þessum sökum tilkynnir sveitarfélagið hér með að fjarlægja þurfi alla lausamuni, sem ekki eru þegar geymdir í gámum, af geymslu­s­væðum Skagafjarðar á Sauðárkróki og Hofsósi.

Eigendur eru beðnir um að fjarlægja alla lausamuni á svæðinu, sem ekki eru í gámum, innan mánaðar frá dagsetningu þessarar tilkynningar. Þeir sem hyggjast nýta svæðið áfram þurfa að tryggja að allar þeirra eigur séu geymdar í geymslu­gámi og undirrita nýjan leigusamning við sveitarfélagið.

Verði ekki brugðist við tilmælum þessum áskilur sveitarfélagið sér allan rétt til að láta fjarlægja muni sem standa í óleyfi á geymslusvæðinu eftir framangreint tímamark, á kostnað eiganda, t.a.m. með kröfu um útburð með atbeina sýslumanns samkvæmt 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Einnig tilkynnist að Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra hefur heimildir til að fjarlægja, á kostnað eiganda, skaðlega lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti í samræmi við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerð um hollustu­hætti, nr. 903/2014.

Í þeim tilvikum þar sem enginn eigandi finnst að lausamunum áskilur sveitarfélagið sér allan rétt til að selja eða farga mununum.

Það tilkynnist einnig hér með að sveitarstjórn hefur samþykkt nýja gjaldskrá og reglur um geymslusvæði á vegum Skagafjarðar. Unnt er að nálgast reglurnar og gjaldskránna á vefsíðu sveitarfélagsins.

Þeir sem óska nánari upplýsinga um framangreint, hafa athugasemdir eða vilja frekari skýringar er bent á að hafa samband við Gunnar Pál Ólafsson með tölvupósti á netfangið gunnarpall@skagafjordur.is eða í síma 455 6000.

Virðingarfyllst,

Hjörvar Halldórsson
Sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs