Fara í efni

Tilkynning um röskun á þjónustu vegna veðurs

11.03.2021
Mælifellshnjúkur í vetrarskrúða

Kannski voru margir farnir að vona að vorið væri rétt handan við hornið eftir veðurblíðuna undanfarið. En þá ákvað vetur konungur heldur betur að minna á sig. Eðli málsins samkvæmt setur veður og færð ýmsa þjónustu sveitarfélagsins úr skorðum en reynt er eftir fremsta megni að láta hlutina ganga eins og hægt er. Allir grunnskólar í héraðinu eru lokaðir í dag. Leikskólinn Birkilundur í Varmahlíð er opinn en lokað er á Hólum og á Hofsósi til kl. 10:00 – þá verður staðan endurmetin. Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki er lokaður en ákveðið hefur verið að meta stöðuna kl. 11:00 og sjá hvort hægt verður að opna þá.

Iðjan á Sauðárkróki verður lokuð fram að hádegi og þá verður staðan endurmetin. Þá verður dagdvöl aldraðra lokuð í dag. Heimaþjónusta raskast nokkuð en um leið og veður leyfir verður reynt að fara af stað með hana.

Íþróttahúsið á Sauðárkróki er lokað fram að hádegi en þá verður staðan endurmetin. Sundlaugin á Sauðárkróki og íþróttamiðstöðin í Varmahlíð eru opin en sundlaugin á Hofsósi lokuð. Skoðað verður hvort hægt verður að opna Hús frítímans um hádegisbilið.

Vonandi verður þetta veðuráhlaup skammvinnt og langþráðir vordagar á næsta leiti.