Fara í efni

Þýskir kokkar og bakarar heimsóttu Ársali

25.09.2014
Börn í Ársölum

Þriðjudagurinn 23. september byrjaði ekki eins og aðrir dagar í Ársölum því þegar börn og foreldrar mættu í skólann voru þau fest á filmu þýskrar myndatökukonu sem hafði komið sér fyrir á skólalóðinni. Í samráði við Ólafshús mættu þau í heimsókn á eldra stig Ársala með fjóra kokka og bakara sem elduðu hádegismatinn þann daginn. Með í för voru þýskir sjónvarpsmenn sem tóku upp viðburðinn og tóku börn og starfsfólk tali. Börnunum fannst tilkomumikið að sjá fjóra hvítklædda starfsmenn í eldhúsinu þegar þau sóttu matinn og spurði eitt þeirra af hverju það væri læknir í eldhúsinu.

Þýska föruneytið fór síðan inn á tvær deildir, bar þar fram matinn og tók börnin tali. Á þýskum matseðli dagsins var dýrindis nautahakkbuff með lauk og hvítlauk, kartöflur með steinselju og rjómasveppasósa með myndarlegum sveppum út í. Þetta féll vel í kramið enda hinn ljúffengasti matur. Yngstu börnin voru eitthvað feimin við að prófa steinselju-kartöflurnar en þá sagði deildarstjórinn ,,iss, þetta eru bara blómakartöflur“ og var það nóg til að fá þau til að borða af bestu lyst því hver vill ekki borða blómakartöflur.

Í eftirrétt var kaka sem bar nafnið ,,Donauwelle“ alveg einstaklega ljúffeng berja-súkkulaðikaka sem rann ljúflega niður litla hálsa sem stóra. Börnin voru mjög ánægð með  þennan dýrindis eftirrétt enda ekki vön að fá eftirrétt á leikskólanum nema til hátíðabrigða.

Þýski fréttamaðurinn tók leikskólastjóra tali og fannst merkilegt hvað Íslendingar eiga mikið af börnum og hve vel er búið að börnunum í leikskólanum. Það er því óhætt að segja að þessi heimsókn hafi verið skemmtileg viðbót við daglegt líf og starf í Ársölum.

Þýska sjónvarpsstöðin ZDF mun væntanlega sýna þátt um mannlífið í Skagafirði um næstu páska svo þá er nú vissara að setja sig í stellingar fyrir framan sjónvarpstækin og stilla á þýsku stöðina.