Fara í efni

Þrjú nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefni ræst af stað í Skagafirði

19.09.2014

Ræsing í SkagafirðiNýsköpunarmiðstöð Íslands, í samstarfi við Sveitarfélagið Skagafjörð og Kaupfélag Skagfirðinga, efndi í sumar til samkeppni um góðar viðskiptahugmyndir í Skagafirði, þar sem einstaklingum, hópum og fyrirtækjum var boðið að senda inn verkefnin sín og sækja um þátttöku í verkefninu Ræsing í Skagafirði. Dómnefnd skipuð af verkefnisstjórn valdi svo fyrir nokkrum dögum þrjár umsóknir til áframhaldandi þróunar, þar sem fullbúin viðskiptaáætlun verður unnin með það í huga að verkefnin verði tilbúin til fjárfestakynningar og reksturs.

Verkefnin þrjú sem valin voru úr hópi 24 mjög góðra og frambærilegra viðskiptahugmynda voru kynnt fyrir viku síðan í Verinu vísindagörðum á Sauðárkróki við hátíðlega athöfn. Verkefnin sem um ræðir eru:

  • Verkefni Harðar Sveinssonar í samstarfi við Háskólann á Hólum snýst um lífræna byggingareinangrun gerða úr lífrænum úrgangsmassa frá bændum, t.d. heyi eða hálmi. Rót bindur lífræna úrgangsmassann saman sem er bakaður við lágan hita. Það stoppar allan vöxt og drepur allt. Afurðin er lífræn einangrun með svipaða eiginleika og frauðplast sem notuð er til einangrunar húsa.
  • Verkefni Hildar Þóru Magnúsdóttur tekur til þurrkunar á skjaldkirtli úr sláturdýrum sem verður notað sem fæðubótarefni eða lyf eftir atvikum og er ætlað til inntöku vegna vanvirks skjaldkirtils.
  • Verkefni Regins Grímssonar hjá Mótun ehf. sem hyggst framleiða einingar til húsbygginga en þær verða með trefjaplast á ytri og innri kápu með steinullareinangrun á milli.

Að kynningu lokinni voru undirritaðir samstarfssamningar á milli forsvarsmanna verkefnanna og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Verkefnin þrjú fá núna 12 vikur til að vinna viðskiptaáætlun fyrir verkefnin sín en á þeim tíma fá aðstandendur verkefnanna mikinn stuðning verkefnisstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar við gerð viðskiptaáætlunarinnar og hugsanlega við vöruþróun og frumgerðasmíði. Tvær milljónir króna hafa verið settar í þróunarpott til að standa straum af hugsanlegum kostnaði við gerð viðskiptaáætlananna og er úthlutað af dómnefnd. Dómnefnd metur þörf verkefnanna fyrir fjármagn.

Þau verkefni sem fullklára viðskiptaáætlun sína eiga svo möguleika á að hljóta allt að 1 milljón króna í verðlaun. Dómnefnd getur úrskurðað að engin viðskiptaáætlun hljóti fyrsta sætið eða að deila eigi fyrstu verðlaunum á fleiri þátttakendur.