Þriðja helgin í aðventu

Hólar í Hjaltadal
Hólar í Hjaltadal

Nú er desember senn hálfnaður og þriðja helgi aðventunnar framundan með ýmsum viðburðum sem hægt er að njóta s.s. tónleikum og aðventuævintýri.

Jólatónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar eru í Menningarhúsinu Miðgarði í dag, föstudag, kl 16 og 18.

Á morgun laugardag verður kvöldstund í Sauðárkrókskirkju kl 20 til styrktar fjölskylduhjálp Skagafjarðar þar sem flutt verða ljúf jólalög úr ýmsum áttum. Fram koma Sveinn Rúnar, Ingi Sigþór, Róbert Smári og Elva Björk og undirleikari er Jóhanna Marín.
Í Kakalaskála verður skemmtun með yfirskriftinni Heimsósómi og hátíðleiki þar sem Gunnar á Löngumýri flytur frumsamda texta við ýmis lög ásamt Írisi Olgu, Sigvalda og Bergrúnu Sólu. Stefán Gíslason sér um undirleik og hefst dagskráin kl 20.

Á sunnudaginn er aðventuævintýri á Hólum í Hjaltadal kl 12-16 þar sem hægt verður að kaupa jólatré hjá Skógræktarfélaginu og fella það sjálfur. Kvenfélag Hólahrepps gefur kakó og smákökur og í Nýjabæ verður ljósmynda- og leikfangasýning ásamt sögustundum kl 13:30 og 15. Jólaföndur verður fyrir börnin Undir Byrðunni og kökusala og flóamarkaður í Sögusetrinu.
Skagfirski kammerkórinn heldur tvenna tónleika á sunnudeginum, kl 16 í Sauðárkrókskirkju og kl 20:30 í Hóladómkirkju. Barnamynd er í Sauðárkróksbíói kl 16 og einnig verður opið í vinnustofu Maríu í Kringlumýri báða dagana kl 14-17.

Körfuboltaáhugafólk getur svo endað helgina með því að mæta í Síkið í íþróttahúsinu á Sauðárkróki og séð leiki meistaraflokka Tindastóls, en lið meistaraflokks kvenna tekur á móti liði Breiðabliks í bikarkeppninni kl 16:00 og strákarnir taka á móti liði Fjölnis í bikarkeppninni kl 19:15 á sunnudaginn.