Fara í efni

Þjóðarsáttmáli um læsi undirritaður 1. september

28.08.2015

Sveitarfélagið Skagafjörður mun taka þátt í samstarfsverkefninu Þjóðarsáttmáli um læsi. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað komu sína til undirritunar samningsins í Árskóla þann 1. september næstkomandi kl. 15. Verkefnið er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og samtakanna Heimili og skóli. Markmið verkefnisins er að við lok grunnskóla geti öll skólabörn lesið sér til gagns en lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi. Slæmur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir. Það er Menntamálastofnun sem hefur umsjón með verkefninu og verða ráðnir ráðgjafar sem munu leiðbeina skólastjórnendum, kennurum og öðru skólafólki um læsi og lestrarnám. Það er von manna að Þjóðarsáttmáli um læsi festist í sessi og verði hluti af almennu skólastarfi til framtíðar.