Fara í efni

Sveitasæla um helgina

19.08.2015
Mynd facebook síða Sveitasælu

Hin árlega landbúnaðarsýning Sveitasæla verður næstkomandi laugardag í reiðhöllinni Svaðastöðum. Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra setur sýninguna kl 11 og auk hans taka til máls Stefán Vagn Stefánsson formaður Byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Sveinn Steinarsson formaður Félags hrossabænda, einnig taka Sigurlaug Vordís og Fúsi Ben lagið.

Ýmislegt áhugavert verður í gangi allan daginn s.s. heitjárning og kynning kynbótadóma, hrútasýning, hæfileikakeppni vélamannsins, rúningur, klaufskurður, handverksmarkaður og kynningar fyrirtækja á vörum sínum. Hundaeigendur eru hvattir til að mæta með hundinn með sér því keppt verður um Sveitasælutíkina/hundinn. Einnig er fólk hvatt til að kippa með sér rabbaralegg en vegleg verðlaun eru í boði fyrir stærsta legginn.

Börnin geta brugðið sér á hestbak en teymt verður undir þeim milli kl 13 og 14. Leitin að nálinni í heystakknum hefst kl 15:30 en það er keppni fyrir börn 13 ára og yngri og er skráning á staðnum.

Kvöldvakan hefst kl 19:30 og þar verður mikið sungið auk þess sem fram fara sleggjudómar, farið verður í reiptog, bændafitness og samhæfnisgöngu bænda.

Nokkur bú verða opin í tilefni sýningarinnar sunnudaginn 23. ágúst milli kl 11 og 16. Sauðfjárbúið í Miðdal, loðdýrabúið í Héraðsdal og ferðaþjónustubúið á Stórhóli en öll eru þau í fyrrum Lýtingsstaðahreppi. Einnig verður opið kúabúið á Hóli í Sæmundarhlíð. 

Nánari dagskrá má finna á facebook síðu Sveitasælunnar