Fara í efni

Sveitasæla og Drangey SK-2 á laugardaginn

18.08.2017
Frá Sveitasælu 2016 - mynd facebooksíða Sveitasælu

Það verður mikið um að vera laugardaginn 19. ágúst í Skagafirði þegar hin árlega Sveitasæla fer fram í reiðhöllinni Svaðastöðum og Skagfirðingar fagna komu Drangeyjar SK 2- nýjum togara Fisk Seafood. Einnig verða opin bú á sunnudeginum í tengslum við Sveitasæluna.

Dagskrá Sveitasælunnar hefst kl 11 með opnun dýragarðs og handverksmarkaðar og Hvolpasveitin mætir á svæðið kl 12. Formleg setning er kl 13 en það er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem setur sýninguna að þessu sinni. Á dagskrá Sveitasælunnar er hrútaþukl, kálfasýning og smalahundakeppni. Kl 17 hefst skemmtidagskrá þar sem Mikael töframaður kemur fram, bændafitness og Rúnar Eff trúbador. Sýningunni lýkur kl 19 en aðgangur á hana er ókeypis. Kiwanisklúbburinn Freyja selur veitingar á staðnum sem renna til góðgerðarmála

Í tengslum við Sveitasæluna verður opið hjá Gestastofu sútarans og Sjávarleðri kl 8-12 á laugardeginum og opin bú á sunnudeginum kl 11-15. Það eru sauðfjárbúið Grænamýri og skógarbúið Silfrastaðir, bæði staðsett í Blönduhlíðinni.

Nýr togari Fisk Seafood Drangey SK-2 verður formlega gefið nafn við hátíðlega athöfn á Sauðárkrókshöfn kl 14 á laugardaginn. Skipið er 62,5 m á lengd, 13,5 á breidd með nýstárlegt skrokklag og perustefni sem tryggja eiga betri siglingareiginleika. Að athöfn lokinni verður gestum boðið að skoða skipið og þiggja kaffiveitingar í tilefni dagsins.

Dagskrá Sveitasælu