Fara í efni

Sveitarstjórnin hafnar sameiningaráformum heilbrigðisstofnana og niðurskurði í fjárlagafrumvarpi

11.10.2013

306. fundur sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar var haldinn í Safnahúsinu fimmtudaginn 10. október. Á dagskrá fundarins voru tvö mál, áform um sameiningu heilbrigðisstofnana innan heilbrigðisumdæma og boðaður niðurskurður í fjárlögum til stofnana og verkefna í Skagafirði.

Sveitarstjórnin hafnar alfarið sameiningaráformum heilbrigðisstofnana og bendir á að enginn landshluti hafi orðið eins mikið fyrir barðinu á niðurskurðinum og Norðurland vestra eins og staðfest er í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Einna verst hafi niðurskurðurinn þó bitnað á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki á sama tíma og ársverkum ríkisstarfsmanna hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu, suðurnesjum og suðurlandi. Sveitarstjórnin óskar eftir viðræðum við Velferðarráðuneytið um að sveitarfélagið taki við rekstri stofnunarinnar og núverandi verkefnum hennar, samkvæmt samningi við ríkið.

Sveitarstjórnin lýsir einnig furðu sinni á framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014. Nái það fram að ganga mun opinberum störfum í héraðinu fækka um tuttugu til viðbótar við þau störf sem þegar eru horfin en í skýrslu sem unnin var fyrir Byggðastofnun kemur í ljós að hátt í fimmtíu stöðugildi hafi horfið eða flust til annara landsvæða á tímabilinu 2008 til dagsins í dag. Sveitarstjórnarmenn segja þetta í hróplegu ósamræmi við það sem eðlilegt geti talist í jafnræði milli íbúa landsins og fyrirheit ríkisstjórnarinnar um jafnrétti til búsetu. Sveitarstjórnin skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að draga nú þegar til baka boðaðan niðurskurð gagnvart starfsemi ríkisins á svæðinu og beita sér fyrir eðlilegri uppbyggingu og þjónustu til jafns við aðra landshluta.