Fara í efni

Sveitarfélagið Skagafjörður kaupir rafmagnsbíl

13.10.2017
Heimastöð rafbílsins er við Ráðhúsið á Sauðárkróki

Í sumar festi Sveitarfélagið Skagafjörður kaup á nýjum Volkswagen e-Golf rafmagnsbíl. Ingvar Gýgjar Sigurðarson, verkefnastjóri hjá sveitarfélaginu, tók við bílnum fyrir hönd sveitarfélagsins. Hann keyrði bílinn í Staðarskála þar sem hann bætti við rafhleðsluna og hélt svo áfram á honum norður í Skagafjörð.

Bílinn hefur allt að 300 km drægni og mun nýtast starfsfólki sveitarfélagsins sérstaklega vel til að komast á milli staða innan sveitarfélagsins. Nú þegar hefur bíllinn nýst starfsfólki allra sviða sveitarfélagsins, þ.e. fjölskyldusviði, fjármála- og stjórnsýslusviði og veitu- og framkvæmdasviði.

Samkvæmt heimasíðu Orku náttúrunnar, www.on.is, þá voru skráðir raf- og tengiltvinnbílar á Íslandi samtals 3.974 þann 1. október sl. og þeim fer sífellt fjölgandi. Í apríl 2014 voru einungis 94 rafbílar og 3 tengiltvinnbílar skráðir á Íslandi.

Kostir rafbíla eru margir. Þeir brenna ekki jarðefnaeldsneyti og losa þar af leiðandi ekki CO2 út í andrúmsloftið. Rafbílar eru ódýrari í rekstri en hefðbundir bílar sem knúnir eru áfram með jarðefnaeldsneyti. 

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Ingvar Gýgjar Sigurðarson taka við rafbílnum hjá Heklu. 

Ingvar tekur við rafbílnum