Fara í efni

Svæðisfundur Arctic Coast Way haldinn í gær

23.11.2017
Mynd: Sævarlandsvík á Skaga

Svæðisfundur fyrir verkefnið Arctic Coast Way eða Norðurstandarleið var haldinn á Sauðárkróki miðvikudaginn 22. nóvember. Á fundinum unnu þátttakendur í hópum og var markmið fundarins að draga fram það besta sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða í fjórum flokkum:

  • Allra besta gönguleiðin
  • Allra besta ströndin
  • Allra besti staðurinn til að horfa á miðnætursólina
  • Allra besti staðurinn til að fylgjast með norðurljósum

Sú krafa var sett að þessir staðir yrðu að hafa tengingu við ströndina. Fundurinn var opinn öllum sem hafa áhuga á svæðinu og vilja taka þátt í að móta þetta flotta verkefni. Vegna veðurs gátu einhverjir ekki mætt á fundinn.

Fjölmargar góðar hugmyndir komu fram á fundinum og líflegar og skemmtilegar umræður sköpuðust. Allar hugmyndirnar verða lagðar fyrir stýrihóp verkefnisins.

Þeir sem ekki sáu sér fært að mæta á fundinn en vilja koma á framfæri hugmyndum sínum geta fyllt út eftirfarandi gátlista og sent í tölvupósti á bryndisl@skagafjordur.is eða komið með blaðið í afgreiðslu Ráðhússins á Sauðárkróki merkt Bryndísi Hallsdóttur. Frestur til að skila inn hugmyndum er til og með 15. desember nk.

Gátlistar fyrir gönguleiðir og strandir

Gátlistar fyrir miðnætursól og norðurljós

Arctic Coast Way eða Norðurstrandarleið er nýtt og spennandi verkefni sem á að draga athygli ferðamanna að strandlengjunni meðfram Norðurlandi. Verkefni snýst um að búa til svokallaðan ferðamannaveg. Slíkir vegir eru þekktir í ferðaþjónustu á heimsvísu, sem verkfæri til að beina ferðamönnum eftir ákveðnum vegum á ákveðin svæði. Markaðsstofa Norðurlands heldur utan um verkefnið og er verkefnastjóri Christiane Stadler. Auk Markaðsstofunnar er sérstakur stýrihópur starfandi fyrir verkefnið. Í honum eru nú 17 manns sem koma frá öllu því svæði sem Arctic Coast Way nær til, frá Hvammstanga til Bakkafjarðar.