Fara í efni

Staða framkvæmda við Sundlaug Sauðárkróks

17.09.2019
Sundlaug Sauðárkróks

Á fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar 17. september 2019 var tekin fyrir fyrirspurn frá Álfhildi Leifsdóttur sveitarstjórnarfulltrúa um stöðu framkvæmda við Sundlaug Sauðárkróks. Fyrirspurnina og svör við henni má sjá hér fyrir neðan.

 Hver er núverandi staða á kostnaði við framkvæmd fyrsta áfanga endurbóta á Sundlaug Sauðárkróks?

 Heildar áfallinn verktakakostnaður við útboðsverkið var í lok júlí kr. 352.256.408,-

Kostnaðurinn skiptist með eftirfarandi hætti;

 

Áfallinn kostnaður   vegna verksamnings                   269.390.475
Verðbætur á verksamning                     15.888.229
Aukaverk                     64.463.301
Verðbætur á aukaverk                       2.514.403
                                          Samtals                   352.256.408

 

Hver var upphafleg kostnaðaráætlun við verkið?

 Kostnaðaráætlun frá Verkfræðistofunni Stoð sem unnin var árið 2017 hljóðaði upp á kr. 281.188.227,-
Eina tilboðið sem kom í verkið þann 14. september 2017 hljóðaði upp á kr. 361.470.113,-.
Farið var í samningaviðræður við bjóðanda og var skrifað upp á verksamning fyrir verkið upp á kr. 332.051.512,- án aukaverkaliðs.
Í lok júlí sl. stóðu enn eftir um 66 m.kr. af því fjármagni sem búið er að samþykkja að verja til verksins í fjárhagsáætlun og viðauka.

 

Hvernig var upphafleg framkvæmdaáætlun fyrir verkið og hvar er það statt miðað við hana?

Samkvæmt verksamningi átti verkinu að vera lokið 15. ágúst sl. Verkið hefur tafist sökum aukins umfangs og breyttrar áfangaskiptingar verksins. Heildarverktími verksins voru um 20 mánuðir en ljóst er að verklok munu dragast um 6 til 8 mánuði.

 

Til hvaða íþróttafólks úr sundhreyfingunni eða annarra fagaðila hefur verið leitað til vegna endurbóta á Sundlaug Sauðárkróks?

 Í hönnunarferli þess áfanga sem nú er í vinnslu var ekki leitað sérstaks álits íþróttafólks úr sundhreyfingunni. Ekki er um neinar breytingar að ræða á núverandi sundlaugarkari eða heitum pottum í þessum áfanga verksins. Haft var samráð við forstöðumann íþróttamannvirkja hjá sveitarfélaginu ásamt starfsfólki sundlaugar. Einnig var hönnunin rýnd sérstaklega m.t.t. aðgengismála. Í þeim áfanga sem nú er í vinnslu er verið að gera upp búningsklefa, aðstöðu starfsfólks, afgreiðslu og önnur innanhússrými sundlaugarinnar.

 

Hvenær er áætlað að fara í annan áfanga endurbóta sundarlaugarinnar?

 Reiknað er með að hönnun annars áfanga sundlaugarinnar geti lokið á árinu 2020 en upphaf verks er háð því hvaða framkvæmdir verða samþykktar í fjárhagsáætlun ársins 2020.