Fara í efni

Skilyrðing fjárveitinga til íþróttafélaga og annarra félaga sem bjóða upp á tómstundaiðkun fyrir börn og unglinga

26.02.2018
Skagafjörður

Á fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 15. febrúar sl. tók ráðið undir samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hér fer á eftir:

"Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarfélög til að skilyrða fjárveitingar til íþróttafélaga og annarra félaga sem bjóða upp á tómstundaiðkun fyrir börn og unglinga, því að félögin setji sér siðareglur, viðbragðsáætlanir og fræði sitt fólk um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Mikilvægt er að félög sýni fram á að farið sé eftir jafnréttisáætlunum og jafnréttislögum í starfi sínu. Séu slíkar reglur nú þegar til staðar hvetur stjórn sambandsins sveitarfélög til að yfirfara sínar stefnur með þetta í huga."

Jafnframt fól byggðarráð sveitarstjóra að óska eftir fundi með formanni og framkvæmdastjóra Ungmennasambands Skagafjarðar vegna málsins.

Sveitarfélagið Skagafjörður styrkir aðildarfélög UMSS með fjárframlögum og leggur áherslu á heilbrigt og öflugt íþróttastarf í Skagafirði.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurskoðun heildarsamnings Sveitarfélagsins Skagafjarðar og UMSS sem vonir standa til að hægt verði að samþykkja á ársþingi UMSS sem fram fer þann 10. mars n.k. Í þeim samningsdrögum sem fyrir liggja og samþykkt hafa verið í félags- og tómstundanefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar, er að finna eftirfarandi ákvæði:

"Fjárveitingar til aðildarfélaga UMSS eru háðar því að félögin vinni eftir þeim siðareglum, viðbragðsáætlunum gegn ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi og áreitni sem UMSS setur sér og standi reglulega fyrir fræðslu um þessi mál fyrir sína félagsmenn. Mikilvægt er að félögin sýni fram á að farið sé eftir jafnréttisáætlunum og jafnréttislögum í starfi sínu."

Þá er bent á yfirlýsingu sem stjórn UMSS sendi frá sér 21. febrúar sl. en hana má lesa hér.