Fara í efni

Skemmtiferðaskipakomur á Sauðárkrók hefjast í næstu viku

08.07.2022
Hanseatic Nature. Mynd af heimasíðu Hapag-Lloyd.

Nú styttist í komu fyrsta skemmtiferðaskipsins í Sauðárkrókshöfn en von er á fyrsta skipinu á fimmtudaginn í næstu viku, þann 14. júlí. Alls eru fjórar skipakomur bókaðar í sumar, tvær í júlí og tvær í ágúst. 

Fyrsta skipið til að stoppa við í Skagafirði er Hanseatic Nature. Skipið mun sigla frá Noregi til Íslands og Grænlands í þessari ferð og tekur allt að 230 farþega.

Tilgangur með komu skemmtiferðaskipa í Skagafjörð er að lyfta undir með ferðaþjónustunni og fá hingað fleiri ferðamenn. Það er staðreynd að skemmtiferðaskip hafa reynst gríðarlega mikilvæg fyrir ferðaþjónustuaðila, veitingahúsa- og verslunareigendur á Siglufirði, Húsavík, Ísafirði, Seyðisfirði og fleiri stöðum á Íslandi. Ferðaþjónustuaðilar vítt og breitt um Skagafjörð eru með ferðir í sölu fyrir skipin og það eru ferðaþjónustufyrirtækin Iceland Travel og Atlantik sem sjá um að þjónusta skipin og selja ferðirnar fyrir ferðaþjónustuaðila. Ekki munu allir farþegar fara í ferðir, svo búast má við töluverðum fjölda ferðafólks á Sauðárkróki þessa daga.

Dagsetningar skemmtiferðaskipakoma í Sauðárkrókshöfn í sumar eru eftirfarandi:

14. júlí (fimmtudagur) – Hanseatic Nature. Skipið tekur allt að 230 farþega.

29. júlí (föstudagur fyrir verslunarmannahelgi) – World Explorer. Skipið tekur allt að 200 farþega.

13. ágúst (laugardagur) – Azamara Pursuit. Skipið tekur allt að 774 farþega.

19. ágúst (föstudagur) – Azamara Pursuit. Skipið tekur allt að 774 farþega (ekki sömu farþegar og 13. ágúst).

Nú þegar er búið að bóka fimm skipakomur næsta sumar og þrjár sumarið 2024.

Hér má sjá yfirlit yfir skemmtiferðaskipakomur í Skagafjörð.