Skagafjörður boðar til fundar vegna nýrra lóðaleigusamninga á Nöfum á Sauðárkróki
Lóðaleigusamningar á Nöfum runnu flestir út síðastliðin áramót. Eftir áramót var farið í þá vinnu að afla upplýsinga um áform þeirra sem höfðu haft leigusamning varðandi framhaldið, það er, hvort fólk ætlaði að nýta sér forleiguákvæði fyrri samnings eða ekki. Flestir aðilar lýstu yfir þeim áformum að ætla að framlengja leigusamning sinn og hefur verið unnið að því að boða fólk til að undirrita lóðaleigusamninga fyrir þær lóðir.
Eftir áheit leigutaka hefur sveitarfélagið ákveðið að boða til fundar með leigutökum á lóðum á Nöfum.
Fundurinn verður haldinn í stóra salnum í Húsi frítímans, að Sæmundargötu 7a, mánudaginn 16. júní næstkomandi klukkan 17:00 og stendur í klukkutíma.
Á fundinum verður Baldur Hrafn Björnsson, sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Skagafjarðar, ásamt Arnóri Halldórssyni, lögmanni frá Megin lögfræðistofu. Á fundinum mun Arnór fara yfir nýja samninga og fjalla um í hverju helstu breytingar liggja milli þeirra samninga sem runnu út síðastliðin áramót og þeirra sem leigutökum stendur til boða að undirrita núna. Eftir yfirferð Arnórs verður opið fyrir spurningar um umrædda samninga, ásamt því sem óundirritaðir samningar verða tiltækir á staðnum og býðst einstaklingum að ganga frá undirritun þeirra í lok fundar.