Skagafjörður auglýsir félagsheimilið Skagasel til Sölu
Í samræmi við ákvörðun 157. fundar byggðarráðs Skagafjarðar frá 15. ágúst 2025 auglýsir Skagafjörður hér með félagsheimilið Skagasel til sölu. Sveitarfélagið óskar eftir tilboðum í eignina og er eignin laus til afhendingar við kaupsamning. Áhugasamir geta haft samband við baldur@skagafjordur.is fyrir nánari upplýsingar.
Lýsing á húsnæðinu: Um er að ræða steinsteypt hús, byggt árið 1983 alls 298 m² að stærð. Húsið hefur fengið gott og reglulegt viðhald og er ástand hússins gott. Fasteignamat Skagasels er 30.755.000 kr. og brunabótamat 157.700.000 kr.
Húsið býður upp á:
- Stóran sal með sæti fyrir 150–160 gesti, hljómsveitarpalli og dansgólfi
- Minni sal sem hentar vel fyrir smærri samkomur eða vinnuaðstöðu
- Eldhús, snyrtingar og sturtuaðstöðu
Staðsetning: Skagasel stendur yst í vestanverðum Skagafirði, á fallegum og friðsælum stað á Skaga, um 37 km frá Sauðárkróki og 21 km frá afleggjaranum á Þverárfjalli. Húsið stendur á 1,2 hektara lóð á landi Hvalness (L145893), umlukið fjölbreyttu landslagi og stórbrotnu útsýni yfir Skagafjörðinn og eyjarnar.
Möguleikar: Skagasel býður upp á fjölbreytta nýtingarmöguleika en til að nefna einhverja kosti má benda á að hægt er að nýta húsnæðið fyrir:
- Vinnuaðstaða fyrir listamenn, tónlistarfólk og fræðimenn
- Námskeið og listasmiðjur
- Hljómsveitaraðstaða og vinnustofur
- Veislur og samkomur
- Gisting og ferðaþjónusta
Náttúra og útivist: Skaginn er einstakur náttúruperla með fjölbreyttu landslagi, fuglalífi og útsýni. Í nágrenninu er:
- Silungsveiði (veiðileyfi seld á nærliggjandi bæjum)
- Sjóstangaveiði og siglingar frá höfninni í Selvík
- Gönguleiðir og reiðleiðir
- Skíðasvæði Tindastóls og möguleikar á snjósleðaferðum
Skemmtilegir viðkomustaðir á Skaganum:
- Ketubjörg, Skagatá, Digramúli, Kaldrani, Kálfshamarsvík
- Skagaströnd og Sauðárkrókur með alla helstu þjónustu innan seilingar
Tækifæri: Húsið er vel staðsett sem bækistöð fyrir ferðafólk, veiðimenn og útivistarfólk. Einnig er mögulegt að breyta húsnæðinu í íbúðarhús eða stúka það niður í minni herbergi fyrir gistingu svo fátt eitt sé nefnt.