Skagafjarðarveitur taka í notkun MÍNAR SÍÐUR fyrir viðskiptavini

Breytingar eru framundan hjá Skagafjarðarveitum þar sem hitaveitureikningar verða ekki lengur sendir til viðskiptavina á pappírsformi og í rafrænni birtingu í heimabanka. Framvegis verða reikningarnir birtir á Mínar síður sem má nálgast á heimasíðu Skagafjarðarveitna skv.is  og í íbúagátt sveitarfélagsins skagafjordur.is ásamt því að krafa stofnast í heimabanka viðkomandi viðskiptamanns.

Í tilkynningu frá Skagafjarðarveitum segir að á heimasíðunni skv.is sé hnappur, Mínar síður orka, og í íbúagátt sveitarfélagsins sé samskonar hnappur undir flipanum Gjöld. Þegar smellt er á þessa hnappa kemst viðskiptavinurinn á Mínar síður þar sem reikningarnir eru aðgengilegir.

Mínar síður orka eru nú þegar virkar og þar er hægt að sjá hitaveitureikninga, hreyfingayfirlit, viðskiptastöðu og notkun og þar er einnig hægt að skrá álestur. 

Þeir viðskiptavinir sem eru 70 ára og eldri og hafa fengið reikninga senda til sín í pósti fá þá áfram senda heim.

Sjáðu yfirlit yfir notkun á þínu heimili

Inn á Mínum síðum orka er auðvelt að fylgjast með notkun heimilisins með því að skrá álestur og mynda þannig álestrasögu.  Bæði er hægt að senda inn eftirlitsálestur sem hefur ekki áhrif á áætlun, eða  uppgjörsálestur og greiða þá fyrir raunnotkun t.d. mánaðarlega eða eftir ákveðnum tímabilum.

Það er mikið öryggi í því að fylgjast vel með notkuninni, til að koma í veg fyrir umframeyðslu með tilheyrandi kostnaði.

Náttúran nýtur vafans

Með þessum breytingum eru Skagafjarðarveitur að nýta sér tækni nútímans til að spara pappír, sendingar- og birtingarkostnað, og auka þjónustu við viðskiptavini sína sem kaupa heitt vatn eftir mæli og munu nú geta fylgst betur með notkun sinni.