Skagafjarðarveitur: Ný greiðsluleið með kreditkorti
Skagafjarðaveitur hafa innleitt nýja lausn í tengslum við boðgreiðslur og áskriftagreiðslur sem tryggir öryggi við móttöku og meðhöndlun kreditkortaupplýsinga.
Allar kortaupplýsingar eru staðfestar með 3-D Secure (3DS) auðkenningu þegar viðskiptavinur skráir kortanúmer á Mínum síðum. Þessi staðfesting fer fram í gegnum útgefanda kortsins og er framkvæmd með rafrænum skilríkjum eða í bankaappi, eftir því hvaða banki gefur út kortið.
Skagafjarðaveitur geyma aldrei kortanúmer, hvorki á vef né í innri kerfum fyrirtækisins. Kortanúmer eru heldur aldrei tekin niður af starfsmönnum. Öryggi og auðkenning korthafa er alfarið tryggð í gegnum ferli færsluhirðis og banka.
Viðskiptavinir geta jafnframt skráð mismunandi kort á mismunandi notkunarstaði sem þeir eru skráðir fyrir.
Með því að nýta 3-D Secure (3DS) staðfestingu er öryggi greiðslna aukið verulega. Kortaeigandi þarf að sannreyna greiðsluna hjá útgefanda, sem dregur úr hættu á misnotkun, fölsuðum færslum og notkun stolinna korta og minnkar jafnframt ábyrgð seljanda.