Fara í efni

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt um helgina

01.06.2018

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt um helgina. Hátíðarhöldin verða  á Sauðárkróki á laugardaginn og á Hofsósi á sunnudaginn. Það verður ýmislegt til skemmtunar og kaffisala slysavarnafélaganna verður á báðum stöðum líkt og áður.

Sjávarsælan á Sauðárkróki hefst á laugardaginn með dorgveiðikeppni kl. 10 á hafnarsvæðinu og kl. 12 er skemmtisigling með Drangey SK 2. Í framhaldinu verður svo dagskrá á hafnarsvæðinu fram eftir degi þar sem farið verður í fjöruga sjómannadagsleiki. Boðið verður upp á pylsur og fiskisúpu, candyfloss og litlar smágjafir. Þá verða hoppukastalar á svæðinu sem og fiskasýning. Kaffisala slysavarnardeildarinnar Drangeyjar verður á Kaffi Krók, neðri sal kl. 12-16.

Um kvöldið verður svo skemmtun í Miðgarði Varmahlíð kl.20 þar sem Logi Bergmann sér um veislustjórn og hljómsveit kvöldsins heldur uppi fjörinu fram á nótt.

Sjómannadagurinn á Hofsósi verður haldinn hátíðlegur á sunnudaginn. Dagskráin hefst kl. 12:30 á helgistund við minnisvarða um látna sjómenn. Sr. Ursula Árnadóttir ásamt kirkjukór Hofsóskirkju leiða athöfnina. Að henni lokinni hefst dagskráin á hafnarsvæðinu þar sem ýmis skemmtun verður, þar á meðal dorgveiðikeppni, þrautabraut, sigling og fleira. Kaffisala slysavarnardeildarinnar Hörpu hefst kl. 15 í Höfðaborg.