Setning Sæluviku

Safnahús Skagfirðinga
Safnahús Skagfirðinga

Á morgun sunnudaginn 30. apríl verður formleg setning Sæluviku Skagfirðinga í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Sæluvikan er gamall menningarviðburður en upphaflega kallaðist vikan Sýslufundarvika og þá kom sýslunefnd Skagafjarðarsýslu saman til fundarhalda. Það er fjölbreytt dagskrá framundan næstu dagana enda um flotta lista- og menningarhátíð að ræða.

Dagskráin hefst kl 13 með setningarávarpi formanns atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar og afhendingu samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2017. Flutt verða tónlistaratriði, úrslit Vísnakeppni Safnahússins kynnt og opnuð sýning á verkum Hannesar Péturssonar og Jóhannesar Geirs, listamanna sem Skagafjörður hefur alið.

Formleg vígsla verður kl 15 á Hannesarskjóli sem er reist til heiðurs skáldinu Hannesi Péturssyni. Skjólið stendur á Nöfunum austan við kirkjugarð Sauðárkróks.

Það er ýmislegt fleira um að vera á setningardegi Sæluviku eins og Grænumýrarfjör í Blönduhlíð þar sem gestum er boðið í fjárhúsin að skoða ungviðið og hressir krakkar munu taka lagið. Sýningin Æskan og hesturinn verður kl 14 í reiðhöllinni Svaðastöðum en þar mun unga kynslóðin í hestamannafélögunum á Norðurlandi koma fram.

Félagsskapurinn Pilsaþytur verður með sýningu á íslenskum þjóðbúningum í Húsi frítímans kl 16:30 og eru gestir hvattir til að mæta í þjóðbúningum. Ævintýrið um norðurljósin, barnaópera sem fjallar um ást tröllastelpu og álfadrengs, verður í Menningarhúsinu Miðgarði kl 17, Stubbur sjóari verður sýndur í Króksbíói, upplýsingamiðstöð Lafleur opnar á Aðalgötu og myndlistarsýningin í Gúttó verður opin kl 14-18.

Á sunnudagskvöldinu frumsýnir Leikfélag Sauðárkróks gamanleikinn Beint í æð í leikstjórn Jóels Sæmundssonar. Sýningin hefst kl 20 í Bifröst og standa sýningar yfir til sunnudagsins 14. maí.

Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í þeirri fjölbreyttu dagskrá sem framundan er í Sæluvikunni.

Gleðilega hátíð!