Sérstökum sóttvarnaraðgerðum aflétt og skólar hefjast að nýju

Skólar á Sauðárkróki sem voru lokaðir í síðustu viku opna aftur í dag.
Skólar á Sauðárkróki sem voru lokaðir í síðustu viku opna aftur í dag.

Sérstökum sóttvarnaraðgerðum sem giltu um Skagafjörð og Akrahrepp hefur verið aflétt og lífið í Skagafirði er hægt og bítandi að færast í eðlilegt horf eftir hópsmit sem upp kom í sveitarfélaginu í byrjun síðustu viku.
Lögreglan á Norðurlandi vestra birti í gær á Facebooksíðu sinni að 20 einstaklingar væru í einangrun í umdæminu og 113 í sóttkví. Jafnt og þétt fækkar í sóttkví og þau smit sem hafa greinst hafa verið hjá einstaklingum í sóttkví.

Leikskólar og skólar í Skagafirði eru opnir með eðlilegum hætti í dag og eru fyrirtæki í sveitarfélaginu að opna aftur eftir skerta starfsemi í síðustu viku. Ráðhúss Skagafjarðar er opið en ennþá verða þó einhverjar takmarkanir á starfseminni út þessa viku þar sem ekki allir starfsmenn eru  staðsettir í húsinu. Hægt er að beina erindum í síma 455-6000, tölvupóstfangið skagafjordur@skagafjordur.is og einnig má finna netfangalista og símanúmer starfsmanna á heimasíðu sveitarfélagsins.

Vert er að minna á mikilvægi þess að einstaklingar og börn haldi sig heima við ef einkenni gera vart við sig og fara við fyrsta tækifæri í sýnatöku. Einnig er mikilvægt að huga að persónulegum sóttvörnum og fara að öllu með gát.