Fara í efni

Samningur undirritaður á milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Landhelgisgæslu Íslands

09.09.2016
Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðarráðs Svf. Skagafjarðar og Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar takast í hendur að lokinni undirritun. Bak við þá standa þeir Auðunn Friðrik Kristinsson verkefnastjóri á aðgerðasviði og Ásgrímur L. Ásgrímsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Fulltrúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Landhelgisgæslu Íslands undirrituðu á dögunum samkomulag um hafnarþjónustu fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar á Sauðárkróki. Samkomulagið kveður á um að Landhelgisgæslunni verði veitt öll nauðsynleg þjónusta fyrir varðskip stofnunarinnar á Sauðárkróki um lengri eða skemmri tíma, þ.m.t. hafnaraðstöðu, aðgang að heitu og köldu vatni, aðgang að rafmagni og losun á sorpi.

Landhelgisgæslan leitast við að hafa varðskip statt fyrir Norðurlandi þegar aðstæður krefjast og er mikilvægt að tryggja aðgengi að hafnaraðstöðu á svæðinu. Með samkomulaginu er stuðlað að öflugra almannavarna- og öryggisstarfi á hafi norðan við Ísland.

Þess má geta að í lok síðasta árs samþykkti ríkisstjórn Íslands margvíslegar aðgerðir til að styrkja innviði, atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra. Ein af hinum samþykktu aðgerðum ríkisstjórnarinnar fólst í að kanna ávinning þess að koma upp varanlegri starfsstöð og heimahöfn fyrir eitt skipa Landhelgisgæslunnar á Sauðárkróki, þar sem m.a. verði horft til eftirlits- og björgunargetu á svæðinu og viðbragðsgetu vegna mengunarslysa.