Fara í efni

Samningur um sjúkraflutninga í Skagafirði

29.01.2016
Undirskrift samnings um sjúkraflutninga í Skagafirði

Í gær var skrifað undir samning um sjúkraflutninga á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í Skagafirði. Heildarupphæð samningsins er 30.000.000 á ári. Tekur hann tillit til alls kostnaðar við mannahald, þjálfun og menntun ásamt eftirliti með búnaði greiningasveitar.

Samningurinn sem gildir til 5 ára nær til allra sjúkraflutninga í Skagafirði utan Fljóta sem njóta þjónustu frá Fjallabyggð. Samningurinn er á milli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) og Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir hönd Brunavarna Skagafjarðar (BS) sem sjá um framkvæmd samningsins.

Gert er ráð fyrir að fjöldi sjúkraflutninga verði 280 á ári að jafnaði á samningstímanum. Samningur sem þessi gerir starfsemi BS öflugri og með slíkum samningi er það ætlun manna að áfram verði afar góð þjónusta við íbúa og þeirra sem heimsækja Skagafjörð.

Á undanförnum misserum hefur verið gert mikið átak í menntun sjúkraflutningamanna sem starfa hjá BS. Í samstarfi BS, Heilbrigðisstofnunarinnar og ekki síst sjúkraflutningamannanna sjálfra hefur tekist að auka menntunarstig og þjálfun sjúkraflutningamanna. Nú eru allir sjúkraflutningamenn hjá BS Neyðarflutningamenn.

 

Mikil ánægja er með að tekist hefur að tryggja óbreytt fyrirkomulag sjúkraflutninga og það góða samstarf sem ríkt hefur á milli BS og starfsfólks HSN á Sauðárkróki segir í fréttatilkynningu frá Brunavörnum Skagafjarðar.