Samfélagsverðlaun Skagafjarðar veitt í annað sinn í dag

Heiðbjört, dóttir Kristmundar, tekur við verðlaunum fyrir hönd föður síns
Heiðbjört, dóttir Kristmundar, tekur við verðlaunum fyrir hönd föður síns

Samfélagsverðlaun Sveitarfélagsins Skagafjarðar voru veitt í annað sinn við setningu Sæluviku fyrr í dag. Verðlaunin eru árlega veitt þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag.

Margar tilnefningar bárust og voru þær allar mjög góðar. Það var því úr vöndu að ráða fyrir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sveitarfélagsins að velja úr mörgum góðum kostum.

Sá sem hlaut Samfélagsverðlaun Skagafjarðar árið 2017 er Kristmundur Bjarnason, fræðimaður á Sjávarborg. Kristmundur var fyrsti formlegi skjalavörður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga og gegndi því embætti um áratuga skeið eða allt til ársins 1990. Kristmundur lagði í sinni tíð grunninn að því einstaka safni einkaskjala og ljósmynda sem Héraðsskjalasafn Skagfirðinga býr yfir og munu ekki eiga sinn líka í nokkru öðru héraðsskjalasafni. Hefur safnið þannig notið einstakra ávaxta af fræðistarfi, elju og útsjónarsemi Kristmundar.

Kristmundur er löngu landskunnur fyrir fræðastörf sín. Eftir hann liggur fjöldi verka um söguleg efni. Má þar nefna Sögu Sauðárkróks, Sýslunefndarsögu Skagfirðinga, Skagfirskan annál, Jón Ósmann ferjumann og nú síðast ævisögu Gríms Jónssonar; Amtmanninn á einbúasetrinu, sem kom út árið 2008. Kristmundur er einn af stofnendum Skagfirðingabókar, ásamt Hannesi Péturssyni skáldi og Sigurjóni Björnssyni prófessor. Í þeim bókum hefur birst gríðarmikið efni um skagfirska sögu. Kristmundur var afkastamikill þýðandi um áratuga skeið.

Skagfirðingar eiga Kristmundi því margt að þakka og má þar enn nefna að í gegnum tíðina hefur hann afhent Héraðsskjalasafni Skagfirðinga gögn úr einkaskjalasafni sínu til varðveislu. Fyrir þá sem ekki vita þá hefur Kristmundur verið ótrúlega iðinn bréfritari í gegnum tíðina og sent og móttekið hundruði bréfa árlega, sem oftar en ekki tengjast sögu Skagafjarðar með einum eða öðrum hætti.

Sveitarfélagið Skagafjörður þakkar Kristmundi fyrir allt hans góða og óeigingjarna starf í þágu samfélagsins. 

Ásta Pálmadóttir og Kristmundur Bjarnason