Saman gegn ofbeldi

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri og Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra undirrituðu eftirfandi yfirlýsingu um samstarf um samvinnu í átaki gegn heimilsofbeldi nú áðan.   

Um er að ræða átaksverkefni til að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á heimilisofbeldismálum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og vernda börn sem búa við heimilisofbeldi.

Það að Lögreglan og Sveitarfélagið Skagafjörður taki höndum saman gefur skýr skilaboð út í samfélagið “um að ofbeldi á heimilum sé ekki liðið” og gerir okkur sterkari í að takast á við þetta verkefni þannig að það skili meiri árangri.

Samstarfsyfirlýsing

„Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur ákveðið að ganga til samstarfs við Lögreglustjórann á Norðurlandi vestra um samvinnu  í átaki gegn heimilisofbeldi. Um nánari útfærslu er vísað til samstarfs lögreglunnar og félagsþjónustunnar um átaksverkefni gegn heimilisofbeldi. 

Verkefnið hefst við undirritun  og er gert ráð fyrir að það standi í ár og verður árangur metinn að því loknu.  Standist verkefnið væntingar að ári liðnu verður það niðurstaða okkar að verklag þetta sé komið til að vera.

Sveitarfélagið Skagafjörður og embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra munu vinna saman að þessu verkefni í samráði við hagsmunasamtök og aðra sem geta lagt verkefninu lið.„