Fara í efni

Sæluvika Skagfirðinga hefst formlega á sunnudaginn en forsælan hefst í dag

24.04.2024

Sæluvika, lista- og menningarhátíð Skagfirðinga verður sett á sunnudaginn, 28. apríl og stendur formlega yfir í viku. Viðbuðir Sæluviku teygja sig þó í báðar áttir, útfyrir hina formlegu Sæluviku og hefst forsælan strax í kvöld þar sem Kvennakórinn Sóldís verður með vortónleika í Gránu og opnunartími verður framlengdur í bakaríinu og hjá Eftirlæti og Táin og strata. Setningarathöfn verður haldin í Safnahúsinu á Sauðárkróki á sunnudag kl 13.

Dagskrá Sæluviku er fjölbreytt að vanda og allt mögulegt menningartengt á dagskrá. Leiksýningar, tónleikar af öllum stærðum og gerðum, gömludansaball, listasýningar, opin hús, bíósýningar, hestasýningar, gönguferðir og hlaup, flóamarkaður, matartengd menning o.fl.

Sæluvikuleikritið í ár í boði Leikfélags Sauðárkróks verður Litla hryllingsbúðin og verður frumsýning í Birföst á sunnudag kl. 20. Leikhópurinn Lotta heimsækir alla grunnskóla Skagafjarðar, Kvennakórinn Sóldís verður með vortónleika á Gránu eins og áður segir, vortónleikar Skagfirska kammerkórsins verða haldnir í Héðinsminni, Vorvindar glaðir fagna 10 ára tímamótum í Kakalaskála, Kirkjukór Sauðárkróks verður á sínum stað með söngkvöld á Sæluviku, Tónlistarskóli Skagafjarðar verður með vortónleika á Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð, Króksbíó verður með bíósýningar á dagskrá, hestasýningin Tekið til kostanna fer fram, notendur Iðju-hæfingar verða með listasýningu í Landsbankanum, Safnahús Skagfirðinga verður með ljósmyndasýningu á ljósmyndum úr safni Stebba Ped, Handverkshús Aðalsteins verður opið, það verða opin hús í Dagdvöl aldraðra og hjá Leikskólanum Ársölum, nemendur á yngsta stigi Árskóla bjóða eldri borgurum í sumarsælukaffi, gönguhópur Helgu Sjafnar og Söru stendur fyrir Sæluvikukvöldgöngu og hlaupahópurinn 550 Rammviltar heldur 1. maí hlaup til styrktar Einstökum börnum. Þá verða einnig á dagskrá kökuhlaðborð, flómarkaður, matartengdir viðburðir o.fl. Ekki má gleyma gömludansaballi Pilsaþyts í Miðgarði þar sem spariskórnir verða dregnir fram og fólk hvatt til að klæðast þjóðbúningum. Hápunktur Sæluviku í ár eru svo tónleikarnir Heima í stofu sem er röð svokallaðra heimatónleika, tónleika sem fara fram í heimahúsum og á öðrum óhefðbundnum tónleikastöðum. Fyrirkomulagið er þannig að ýmsir flytjendur halda nokkra stutta tónleika á mismunandi stöðum á einu kvöldi. Gestum býðst að kaupa einn aðgöngumiða sem gildir á alla þessa tónleika sem munu hefjast á mismunandi tímum til að gefa gestum kost á að sjá sem flesta. Í lok kvöldsins sameinast svo allt listafólkið á einn stað á lokatónleikum sem munu fara fram á Kaffi Krók.

Hefð hefur skapast fyrir því að afhenda Samfélagsverðlaun Skagafjarðar á setningu Sæluviku en samfélagsverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag.

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar voru veitt í fyrsta sinn á setningu Sæluviku Skagfirðinga árið 2016 og verða því veitt núna í 9 skiptið.

Eins og áður sagði hefst Sæluvika formlega í Safnahúsinu á Sauðárkróki á sunnudaginn kl. 13:00. Kaffi og terta verður í boði fyrir gesti og vonumst við til þess að sjá sem flesta.

Dagskrá setningar Sæluviku:

  • Eyrún Sævarsdóttir, fulltrúi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Skagafjarðar setur Sæluviku
  • Afhending Samfélagsverðlauna Skagafjarðar
  • Úrslit í Vísnakeppni Safnahússins verða tilkynnt
  • Formleg opnun ljóslmyndasýningar úr safni Stebba Ped
  • Tónlistarflutningur í boði Tónlistarskóla Skagafjarðar

Upplýsingar um alla viðburði Sæluviku er að finna á heimasíðu Sæluviku www.saeluvika.is, í Sjónhorninu í þessari viku og á Facebook síðu Sæluviku.

Gleðilega Sæluviku!