Fara í efni

Sæluvika 2026 verður haldin dagana 12.-19. apríl

22.01.2026

Sæluvika Skagfirðinga er árleg lista- og menningarhátíð sem haldin er í Skagafirði og hefur um árabil verið mikilvægur hluti af menningarlífi sveitarfélagsins.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd samþykkti samhljóða á síðasta ári að færa tímasetningu Sæluviku fram um tvær vikur frá og með árinu 2026. Ákvörðunin byggir á niðurstöðum leiðbeinandi íbúakönnunar sem lögð var fyrir íbúa haustið 2025. Vert er að taka fram að breytingin verður innleidd sem tveggja ára tilraunaverkefni.

Við endurskoðun tímasetningar hátíðarinnar var meðal annars horft til þess að stór hluti íbúa Skagafjarðar stundar árstíðabundin störf og í lok apríl eru margir hverjir komnir á fullt í slík störf. Með því að færa Sæluviku fram er vonast til aukinnar þátttöku íbúa og gesta sem og meiri fjölbreytni í viðburðum hátíðarinnar.

Sæluvika 2026 hefst því sunnudaginn 12. apríl 2026 og stendur yfir í viku.

Þeir aðilar sem hyggjast standa fyrir viðburði á hátíðinni mega gjarnan senda eftirfarandi upplýsingar á netfangið mannlif@skagafjordur.is.

  • Dag- og tímasetningu.

  • Stutta lýsingu á viðburði og mynd.

  • Nafn og símanúmer tengiliðs / viðburðahaldara.

Sveitarfélagið hvetur íbúa Skagafjarðar til að taka virkan þátt í Sæluviku 2026, bæði sem þátttakendur og skipuleggjendur, og leggja þannig sitt af mörkum til áframhaldandi þróunar hátíðarinnar.