Rökkurganga í Glaumbæ og tónleikar

Gamli bærinn - mynd glaumbaer.is
Gamli bærinn - mynd glaumbaer.is

Nú nálgast jólin og því gott að staldra aðeins við í jólaamstrinu og hverfa aftur í tímann. Hugsa aðeins til forfeðra okkar sem bjuggu við annan húsakost en við eigum að venjast í dag.

Það er alls ekki svo langt síðan Íslendingar bjuggu í torfbæjum og muna eflaust margir eftir Pálínu á Skarðsá í Sæmundarhlíð  sem bjó einna lengst í þannig húsakynnum eða fram undir 1990.

Sunnudaginn 20. desember býður Byggðasafn Skagfirðinga til sinnar árlegu rökkurgöngu í gamla bæinn í Glaumbæ og hefst hún klukkan 16.

Þetta er í 20. sinn sem safnið býður gestum í heimsókn á aðventunni og á heimasíðu safnsins segir að hefðin verði aðeins brotin upp af því tilefni og er aðgangur ókeypis. Áskaffi verður opið milli kl 14 og 19 þannig að hægt er að koma þar við og fá sér heitt súkkulaði og kökur í gamla stílnum.

Að sjálfsögðu er ýmislegt fleira í boði þessa síðustu daga fyrir jólin og verslanir og fleiri fyrirtæki opin lengur með tilheyrandi kósýheitum.

Í kvöld, föstudag, verður Kammerkór Skagafjarðar með jólatónleika í Hóladómkirkju og mun heimakór kirkjunnar vera gestur kórsins.

Dagskrá fram að áramótum má finna hér.