Rekstraraðili fyrir félagsheimilið Skagasel
Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir eftir umsóknum frá aðilum sem vilja taka að sér rekstur félagsheimilisins Skagasels, F2139590, til allt að 10 ára, með gagnkvæmum uppsagnarákvæðum.
Félagsheimilið Skagasel stendur nærri bænum Hvalnesi á Skaga og er byggt árið 1983. Húsið er 297,8 m2 að gólffleti á tveimur hæðum. Þar er m.a. samkomusalur sem tekur um 150 manns í sæti, ásamt ágætu eldhúsi.
Í húsinu hefur verið rekin hefðbundin starfsemi félagsheimila, s.s. veislur, þorrablót og aðrir mannfagnaðir, í bland við ferðaþjónustutengda starfsemi. Umsækjanda er skylt að reka húsið áfram með sambærilegum hætti.
Leigugreiðsla tekur mið af álögðum fasteignasköttum, skyldutryggingum og viðhaldskostnaði sem nemur 0,85% af brunabótamati fasteignarinnar. Rekstraraðila ber jafnframt að standa straum af greiðslu rafmagns, hita og annarra trygginga.
Óskað er eftir að með umsókn fylgi upplýsingar um bakgrunn og reynslu umsækjanda.
Umsóknarfrestur er til 10. ágúst nk. og skal skila umsóknum á netfangið skagafjordur@skagafjordur.is eða í Ráðhúsið á Sauðárkróki, Skagfirðingabraut 21, 550 Sauðárkróki.